Tregt á kolmunnanum

Deila:

,,Það er afskaplega rólegt yfir aflabrögðunum. Við erum búnir að vera hérna í tvo daga. Það er togað lengi og aflinn hefur farið upp í mest 100 tonn,“ sagði Theódór Þórðarson, sem er skipstjóri í yfirstandandi veiðiferð Venusar NS í Síldarsmuguna, er rætt var við hann síðdegis í gær af heimasíðu HB Granda.

Venus var meðal fyrstu íslensku skipanna sem kom á svæðið en fyrir var þá Sigurður VE og Guðrún Þorkelsdóttir SU var á heimleið eftir nokkra daga á miðunum. Síðan hefur skipunum fjölgað nokkuð en að sögn Theódórs felst viðbótin aðallega í rússneskum frystitogurum. Þá er Víkingur AK kominn á miðin.

,,Við verðum ekki að óbreyttu mjög lengi hér enda er lítið að sjá. Það er varla að við sjáum ,,ryk“ á mælum. Kolmunninn kemur í mesta lagi fram sem örsmáir punktar á mælunum.“

Það styttist í þann árstíma að menn geta farið að velta makrílveiðum fyrir sér og Theódór vonar að það dragist ekki langt fram í júlímánuð.

,,Ef að líkum lætur hefjast veiðarnar við Suð-Austurland í Hvalbakshallinu og næsta nágrenni. Albert á Víkingi varð var við makríl út af þessu svæði á siglingunni hingað og vonandi veit það á gott varðandi veiðina í sumar,“ sagði Theódór Þórðarson.

Deila: