Salfiskverkun á Raufarhöfn lokað?

Deila:

Saltfiskverkun Hólmsteins Helgasonar á Raufarhöfn verður að líkindum lokað og átta manns missa vinnuna. Fyrirtækið fær ekki sértækan byggðakvóta, en Byggðastofnun hefur úthlutað öllum kvótanum til GPG fiskverkunar til næstu sex ára samkvæmt frétt á ruv,is.

Saltfiskvinnsla Hólmsteins Helgasonar ehf. var opnuð 2015. Vonast var til að starfsemin nyti góðs af sértækum byggðakvóta Byggðastofnunar, sem er ætlað að styðja við atvinnulíf í fámennum sjávarplássum. Fyrirtækið hefur ekkert fengið, heldur hefur allur kvótinn runnið til GPG fiskvinnslu á Húsavík, sem rekur útibú með 30 starfsmönnum á Raufarhöfn.

Átta manns voru í vetur í fullu starfi í saltfiskvinnslunni. Í fyrra stefndi í að fyrirtækinu yrði lokað vegna þess að 100 tonna sértækur byggðakvóti fór til GPG, en ekki til Hólmsteins, en því var frestað.

„Erum að ljúka þessum kafla“

Á stjórnarfundi Byggðastofnunar í júní síðastliðnum var tekin ákvörðun um að úthluta 500 tonna sértækum byggðakvóta á ári, til næstu sex ára, ásamt 200 tonnum vegna yfirstandandi fiskveiðiárs, til GPG. Öðrum umsóknum, meðal annars frá saltfiskvinnslu Hólmsteins, var hafnað. Hólmsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að þetta þýði að saltfiskvinnslunni verði lokað. Lítil starfsemi hefur verið hjá fyrirtækinu á sumrin, en Hólmsteinn segir engar líkur á að fólk verði endurráðið. „Hvorki í haust né eftir áramót. Við erum að ljúka þessum kafla,“ segir hann.

Verð og umfang standi ekki undir rekstrinum

Hólmsteinn segist eiga töluvert mikinn kvóta sem hafi verið leigður annað. Hann telur að það sé ein af ástæðum þess að ekki fáist sértækur byggðakvóti. Hins vegar sé byggðakvótinn nauðsynlegur stuðningur til þess að halda úti fámennri saltfiskverkun á Raufarhöfn. Verðið á saltfiski og umfang starfseminnar standi ekki undir rekstrinum.

Byggðastofnun hefur metið það sem svo að úthlutun til GPG, sem er mun stærra fyrirtæki en saltfiskvinnsla Hólmsteins, sé besta leiðin til að efla atvinnulíf á Raufarhöfn.

Mestmegnis ungt heimafólk

Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir, fyrrverandi starfsmaður hjá Hólmsteini, segir að lokun saltfiskvinnslunnar hafi slæm áhrif á samfélagið. „Maður veltir fyrir sér hvort ekki sé möguleiki að bæði fyrirtækin fái úthlutun. Það eru þessi tvö fyrirtæki og þau eru bæði í sjávarútvegi. Er þá ekki allt í lagi að skipta þessu á milli þeirra?“ segir Ingibjörg Hanna.

Hún segir að uppistaðan í saltfiskvinnslunni hafi verið ungt fólk. „Þetta er bara lítil fjölskylda, allt saman heimafólk. Ég veit ekki alveg hvað þau gera,“ segir Ingibjörg Hanna. Hún efast um að mörg þeirra færi sig yfir til GPG, jafnvel þótt það væri í boði.

 

Deila: