Verður allt klárt um helgina

Deila:

Eins og fram hefur komið er makríllinn heldur seinna á ferðinni við landið í ár en síðustu ár. Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni, segir í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar, að það sé eðlilegt því sjávarhiti sé lægri í ár en undanfarin ár og það hafi sín áhrif. Síðustu daga hefur afli þó verið að glæðast en skipin hafa gjarnan verið að veiðum í Háfadýpinu austur af Vestmannaeyjum. Makríllinn sem þarna fæst lofar góðu; stór og fallegur en í honum er dálítil áta.

Gert er ráð fyrir að makrílvinnsla hefjist í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað snemma í næstu viku og er það seinna en síðustu ár. Í fyrra hófst vinnsla í verinu 21. júlí þegar Bjarni Ólafsson AK kom með fyrsta farminn. Gera má ráð fyrir að allt verði prufukeyrt í verinu fram að verslunarmannahelgi og síðan hefjist vinnsla af fullum krafti að henni lokinni.

Karl Rúnar Róbertsson gæðastjóri segir að allt sé að verða klárt til móttöku makríls í fiskiðjuverinu. „Það er verið að leggja lokahönd á nokkur verkefni og setja saman einhver færibönd en því verður lokið núna í vikunni. Hér verður allt klárt um helgina,“ segir Karl Rúnar.

 

Deila: