Ríflega helmingur makrílkvótans veiddur

Deila:

Nú er ríflega helmingur makrílkvótans kominn á land. Aflinn er orðinn 77.000 tonn, kvótinn er 146.000 tonn og því óveidd um 69.000 tonn. Aflareynsluskipin eru að vanda atkvæðamest í veiðunum, enda stór og afkastamikil. Skip án vinnslu stunda engar veiðar nú frekar en áður og aðeins 2 vinnsluskip hafa landað afla. 46 smábátar hafa stundað veiðarnar í sumar.

Aflareynsluskipin eru 20 og hafa landað um 66.000 tonnum. Fjögur þeirra eru komin yfir 5.000 tonn. Af þeim er Víkingur AK með mestan afla um 5.800 tonn. Næst kemur Vilhelm Þorsteinsson EA með 5.700 tonn, þá Guðrún Þorkelsdóttir SU með 5.600 tonn og loks Hoffell SU með 5.350 tonn.

Aðeins tvö vinnsluskip hafa landað afla en það eru Grindavíkurtogararnir Hrafn Sveinbjarnarson og Gnúpur, samtals um 2.100 tonnum. Ekkert skip í flokknum skip án vinnslu stundar veiðarnar og hefur nánast allur kvóti þeirra, um 5.000 tonn verið fluttur yfir á önnur skip. Sömuleiðis hafa 14.500 tonna heimildir verið fluttar af vinnsluskipunum yfir á aflareynsluskipin.

Smábátarnir eru nú komnir með um 3.500 tonn. Siggi Bessa SF er með mestan afla þeirra, 203 tonn, en næst koma Júlli Páls SH með 196 tonn og Herja ST með 180 tonn.

 

 

Deila: