10 milljón tíuþúsundkallar

Deila:

„Efnahagsleg áhrif þorsksins hérlendis eru gríðarleg og þau geta vaxið umtalsvert ef rétt er á málum haldið. Útflutningur á hefðbundnum þorskafurðum skilaði 100 milljörðum króna í tekjur fyrir Íslendinga árið 2016 og vegna gengisbreytinga „aðeins“ 84 milljörðum á síðasta ári. Ef við bætum við útflutningi á vélum, hugbúnaði og þekkingu til veiða og vinnslu þorsks og ýmsum öðrum þorskafurðum, t.d. niðursoðinni lifur og svo snyrtivörum, stoðefnum og fleiru sem unnið er úr afurðum þorsksins eru tekjur landsins af þorskinum langtum meiri en 100 milljarðar króna á ári. Það eru 10 milljón tíuþúsundkallar og rúmlega það, ár eftir ár. Það er í raun með ólíkindum hve þorskurinn hefur skapað Íslendingum mikil verðmæti í aldanna rás. Opinber gögn ná reyndar ekki lengra aftur en til síðustu aldamóta, en síðan þá hefur þorskurinn fært Íslendingum tæplega 1.700 milljarða króna útflutningstekjur, á föstu verðlagi.“

Svo segir í greiningu Íslenska sjávarklasans um þýðingu þorskveiða, -vinnslu og útflutnings fyrir íslenska efnahagslífið. Þar er ennfremur bent á ört vaxandi þýðingu ýmissar sérvöru sem unnin er úr roði og slógi þorsksins til lækninga of heilsubótar. Í greiningunni segir ennfremur:

„Íslendingar hafa veitt að meðaltali um 217.000 tonn af þorski á hverju ári síðastliðin 20 ár. Það eru 217 milljón kíló og í kringum 22 milljón þorskar. Það sem er einstakt við veiðar og vinnslu Íslendinga er að við nýtum stærstan hluta aflans í afurðir, ólíkt flestum nágrannaþjóðum okkar. Íslensk fyrirtæki nýta að jafnaði 77-80% þorsksins í ýmsar afurðir (og sum nálægt 100%) á meðan tæpur helmingur hvers þorsks fer aftur í hafið eða í sorpeyðingu í nágrannalöndum okkar við Norður-Atlantshaf. Þar hefur nýtingin aðeins verið um 46-53% á undanförnum árum. Rannsóknir Íslenska sjávarklasans benda þannig til að um 571 þúsund tonn af þorskafurðum fari til spillis á heimsvísu á ári hverju. Betri meðferð þessa gríðarmikla magns af náttúrulegum próteinum, fitu og kalki ætti að vera kappsmál allra þjóða við Norður-Atlantshaf enda felst í þessu mikið tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar.“

Greininguna í heild má lesa á slóðinni: http://www.sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2018/09/Heill-s%C3%A9-%C3%BE%C3%A9r-%C3%BEorskur.pdf

 

Deila: