Norðmenn að drukkna í síld

Deila:

Norðmenn eru að „drukkna“ í norsk-íslenskri síld þessa dagana. Veiðin hefur verið svo mikil að ekki hefst undan að vinna aflann í landi og ekki verður tekið á móti meiru af síld fyrr en undir vikulokin. Þessi mikli afli hefur einnig leitt til þess að verð á síld upp úr sjó hefur lækkað.

Þetta kemur fram á vef Sildesalgslaget í Noregi, en það eru sölusamtök uppsjávarfisks og fer salan í gegnum þau. Þar á undan var landburður af makríl og síðustu þrjár vikurnar nam sala á uppsjávarfiski um 29 milljörðum íslenskra króna. Verðmætið hefur aldrei verið jafnmikið á svona skömmum tíma.

Í síðustu viku var landað 35.000 tonnum af síld og enn barst mikill afli á land um helgina og hafa sjómenn viðrað hugmyndir um tímabundið löndunarbann til að koma í veg fyrir verðfall á síld upp úr sjó. Til þess hefur Sildesalgslaget ekki heimild meðan allur aflinn selst þó það gangi hægt.

Síldaraflinn nú er orðinn um 176.500 og eru þá 182.500 tonn óveidd af kvóta þessa árs. Af makríl er búið að veiða 174.000 tonn en kvóti ársins er 190.000 tonn.

 

 

Deila: