145 grindhvali rak á land í Nýja Sjálandi

Deila:

Vel á annað hundrað hvalir fundust í afskekktri fjöru á lítilli eyju í Nýja Sjálandi á laugardag. Maður sem var á gangi á Stewart eyju, sem er um 30 kílómetra suður af Suðureyju Nýja Sjálands, fann hvalina og lét vita af þeim. Helmingur hvalanna var dauður þegar hann fann þá. Vegna þess hve illa hinir hvalirnir voru á sig komnir og erfiðra aðstæðna á strandstað þeirra var ákveðið að aflífa þá samkvæmt frétt á ruv.is.

Ren Leppens, verkefnastjóri náttúruverndarstofnunar Stewart eyju, segir í samtali við AFP fréttastofuna að því miður hafi afskaplega litlar líkur verið á því að hægt yrði að bjarga hvölunum með því að koma þeim aftur út í sjó. Það hafi verið erfið ákvörðun að aflífa þá, en miðað við kringumstæður hafi það verið það mannúðlegasta í stöðunni.

Alls voru þetta um 145 grindhvalir sem ráku á fjöru eyjunnar. Yfirvöld fengu tilkynningu um þrjú önnur tilvik þar sem hvali rak upp á fjörur í Nýja Sjálandi um helgina. Tíu dverg-háhyrningar syntu upp í fjöru 90 mílna strandarinnar nyrst á Norðureyju. Tveir þeirra eru dauðir og reyna á að koma hinum átta á flot á morgun.  Búrhvalur strandaði og drapst á laugardag, og hræ dverg-búrhvals fannst einnig á laugardag. Árlega fá yfirvöld um 85 tilkynningar að meðaltali um að hvali reki á fjörur, en yfirleitt er það einn hvalur í hvert skipti.

 

Deila: