Veiðar á ígulkerum stöðvaðar

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um bann við veiðum á ígulkerum á vestursvæði  í innanverðum Breiðafirði.  Hafrannsóknastofnun hefur ráðlagt í samræmi við varúðarsjónarmið að afli þetta fiskveiðiár verði ekki meiri en 250 tonn í innanverðum Breiðafirði. Veiðisvæði þar eru tvö og ráðlagður afli á vestursvæðinu er 150 tonn, en 100 tonn á austursvæðinu.

Stofnstærðarmat, framkvæmt í september 2015 og apríl 2016 í innanverðum Breiðafirði, bendir til að 2500–3000 tonn af ígulkerum séu á svæðunum. Í ljósi varúðarsjónarmiða miðast ráðgjöf Hafró við 10% af lægra gildi þessa mats

Ígulkeraveiðar hófust árið 1993 og langmest hefur verið veitt í Breiðafirði. Á árunum 1997–2003 lögðust veiðarnar að mestu af. Þótt samdráttur í afla skýrist að verulegu leyti af versnandi markaðsaðstæðum, létu mörg bestu veiðisvæðin verulega á sjá eftir veiðarnar. Veiðar á ígulkerum hófust að nýju í Breiðafirði árið 2005 og hefur árlegur afli verið á bilinu 120–350 tonn frá 2007.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: