Aflaverðmæti breytilegt milli landshluta

Deila:

Miklar sveiflur voru í verðmæti landaðs afla milli landshluta í ágúst síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra. Breytingarnar eru allt frá 26% samdrætti upp í 45% aukningu, samkvæmt nýjustu upplýsingum Hagstofu Íslands. Að meðaltali var verðmæti landaðs afla það sama nú og í fyrra. Landaður afli skilaði þó mestum verðmætum á höfuðborgarsvæðinu að vanda, enda afkastamiklar útgerðir þar.

Þegar litið er á aukninguna frá sama mánuði á síðasta ári, er hún mest á Norðurlandi vestra, 56,8%. Heildarverðæti landaðs afla þar var um 1,1 milljarður króna. Skýringin á þessari miklu aukningu liggur í meiri afla, en sú aukning er langt umfram landsmeðaltal í þessum mánuði. Þar gæti skipt máli afli stóru línubátanna sem oft eru fyrir norðan á þessum tíma árs og landa þar.

Næstmesta verðmætaaukningin er á Vesturlandi, 45,1%. Heildarverðmætið er engu að síður lágt, það lægsta af öllum landshlutum, 480,8 milljónir króna. Skýringin liggur í auknum afla, en þegar um svona lágar tölur er að ræða, þarf ekki mikið meira en svo að ein togaralöndun lendi sitthvoru megin við mánaðamót.

Verðmæti afla á Suðurnesjum hækkaði um 7,3% og var 1,7 milljarðar króna. Breytingin er ekki meiri en svo að líklega liggur hún í hærra fiskverði en í sama mánuði í fyrra.

Á samdráttarsviðinu er Norðurland eystra efst á blaðinu með 26,2%. Aflaverðmæti þar var 1,2 milljarðar króna. Hluti skýringarinnar gæti legið í minni afla strandveiðibáta en líklega hafa togarar landað þar minni afla en árið áður. Næstmestur samdráttur í verðmæti var á Suðurlandi, þar sem verðmæti landaðs afla var 782 milljónir króna, samdráttur um 14,4%. Skýringin liggur væntanlega í minni afla og líklegt er að lélegasta humarvertíð sögunnar komi þar við sögu.

Aflaverðmæti á Vestfjörðum var 585 milljónir króna, sem er samdráttur um 12%. Það er athyglivert því afli strandveiðibáta í landshlutanum jókst verulega frá fyrra ári og verð á þorski upp úr sjó hækkaði. Skýringanna verður því að leita í minni afla annarra báta, líklega vegna samdráttar í makrílveiðum smábáta.

Verðmæti landaðs afla á höfuðborgarsvæðinu var 3,3 milljarðar króna, sem er 4,5% samdráttur frá síðasta ári. Þann samdrátt má væntanlega rekja til lítilsháttar afla samdráttar eða óhagstæðari samsetningu landaðs afla.

Deila: