Tuttugasti hópurinn hjá Sjávarútvegsskóla SÞ
Nú í haust tekur Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP) á móti nýjum hópi nemenda í 20. skipti frá því hann var stofnaður árið 1997. Haldið verður upp á þennan áfanga með ýmsum hætti, en einna hæst ber þátttöku á ráðstefnunni World Seafood Congress 2017.
Á vegum skólans munu t.d. um 50 núverandi og fyrrverandi nemendur taka virkan þátt með framsögum og kynningum. Skólinn á einnig veg og vanda að því að fá á ráðstefnuna einn frægasta sjávarlíffræðing heims, Ray Hilborn. Sjávarútvegsskólanum hefur frá upphafi verið ætlað mikilvægt hlutverk í aðstoð Íslands við þróunarlönd.
Veigamikill hluti af því námi og þjálfun sem skólinn býður upp á snýr að meðferð og vinnslu afla, en það er einmitt mjög mikilvægur liður í að tryggja almenningi í þróunarlöndum aðgang að hollum og öruggum matvælum og einnig lykilforsenda árangurs á sviði útflutnings sjávarafurða. Á sama tíma hefur alltaf verið ljóst að skólinn getur, t.d. með uppbyggingu á tengslanetum innan sjávarútvegs á alþjóðavísu, haft mikið gildi fyrir íslenskan sjávarútveg og skyldar greinar og styrkt stöðu okkar sem einnar af leiðandi fiskveiði- og fiskvinnsluþjóðum heims.
Á World Seafood Congress gefst frábært tækifæri fyrir gamla og nýja nemendur skólans, svo og fjölmarga samstarfsaðila hans í gegnum árin, að hittast og bera saman bækur sínar:
Hvað ber hæst í 20 ára sögu skólans? Hvar hefur hann náð mestum árangri? Hvar er hægt að gera enn betur?