Miklu fleiri sækja í nám í veiðarfæragerð

Deila:

Nám í veiðarfæragerð hófst á síðasta ári við Fisktækniskólann í Grindavík og eru nú um tveir tugir skráðir í námið. Það er langmesti fjöldi nemenda í þessari atvinnugrein áratugum saman. Bóklegt nám er tekið við skólann, en verklega námið er tekið á netaverkstæðunum. Skólinn tók við þessu námi á síðasta ári af Fjölbrautarskóla Suðurnesja.

Netagerð er starfstengt nám á framhaldsskólastigi þar sem áhersla er lögð á að auka þekkingu og færni við hönnun, framleiðslu, viðhald og viðgerðir á veiðarfærum. Meðalnámstími er þrjú ár að meðtalinni 72 vikna starfsþjálfun.

Námið er samningsbundið iðnnám og skiptist í bóklegar greinar (tvær annir í skóla) og vinnustaðanám, samtals 204 f-einingar. Í vinnustaðanámi afla nemendur sér námssamningi í fyrirtæki sem samvarar 146 f-einingum. Námi í netagerð lýkur með sveinsprófi. Netagerð er löggilt iðngrein. Raunfærnimat hefur farið fram í greininni þar sem metin er færni sem aflað er á vinnumarkaði.

Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri Veiðarfæraþjónustunnar í Grindavík. segir netagerð ekki síðri atvinnugrein fyrir konur en karla.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Módelgerð hjá Veiðarfæraþjónustunni

Veiðarfæraþjónustan í Grindavík  er einn þeirra aðila sem hafa verið í samstarfi við Fisktækniskólann á námsbraut í veiðarfæragerð. Þrír aðilar hafa skipt verklegu kennslunni á milli sín. Hörður Jónsson er með einn hlutann í Veiðarfæraþjónustunni, Hermann Guðmundsson hjá Hampiðjunni er með annan og svo er Rut Jónsdóttir hjá Hampiðjunni með þann þriðja. Módelgerðin er hjá Veiðafæraþjónustu. Annars eru nemendur á námssamningi hver hjá sínu verkstæði auk náms við skólann. Hörður segir að raunfærnimatið hafi hjálpað mörgum og aukið áhuga á því að ljúka sveinsprófi. Það komi til góða þeim sem ekki voru tilbúnir í skóla þegar þeir voru yngri en hafi ýmist verið á sjó eða unnið á netaverkstæðum.

Aldur netagerðarmanna ískyggilega hár

„Ég vil ekki segja að þetta sé deyjandi stétt en meðalaldur lærðra netagerðarmanna er orðinn ískyggilega hár. En nú eru nemendur að týnast inn á ný. Það þarf að ýta undir yngra fólkið í þessum efnum. Stefna stjórnvalda hefur ekki sú, heldur öllum stýrt inn í menntaskóla og síðan Háskóla. Iðnmenntunin hefur því setið á hakanum. Hvað varðar netagerðina hefur orðið samþjöppun í útgerðinni og sömuleiðis á verkstæðunum. Við höfum verið með sama mannskapinn frá því við byrjuðum þar til í fyrra eða hitteðfyrra. Þá fóru menn að hætta vegna aldurs og þá stóðum við fram fyrir því að þurfa nýjan mannskap. Fá yngri menn til að koma inn í fagið, en það virðist ekki vera hlaupið að því. Við keppum ekkert við sjómenn í launum, en erum á svipuðu róli og aðrar iðngreinar í launum að mestu leyti held ég.

Ekki bara fyrir karlmenn

Netagerðin hefur verið svolítið karllæg stétt, en hún þarf alls ekki að vera það. Erlendis er til dæmis mjög mikið af konum í þessari grein og standa sig mjög vel. Þess vegna þarf að kynna þetta nám fyrir konum líka. Þetta er þægileg vinna sem að mestu leyti er unnin inni, þrifaleg vinna að góðar aðstæður. Við þurfum kynna þetta á þann hátt að það veki áhuga hjá yngra fólki. Þar má til dæmis nefna að það er heilmikil tölvuvinna í hönnun veiðarfæra,“ segir Hörður Jónsson.

Greinin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Ægis.

 

 

Deila: