Veiðarfæri í brennidepli í nýjasta Ægi
Mun fleiri sækja nú í netagerðarnám en áður. Um 20 manns eru skráðir í námið hjá Fisktækniskólanum í Grindavík en á síðustu árum hafa aðeins verið 2 til 3 í slíku námi árlega. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Ægis á þessu ári, en þar er áherslan lögð á veiðarfæri af ýmsu tagi og veiðarfæra gerð.
Rætt er við fulltrúa framleiðenda veiðarfæra hér á landi, en hampiðjan er þeirra umsvifamest. Einnig er fjallað um nám í netagerð og sagt frá toghlerum framtíðarinnar, sem eru fjarstýranlegir úir brú skipsins og auðveldar það stýringum á skverun og stýringu trollsins betur en áður.
„Fyrsta útgáfa Ægis á árinu 2019 er að stærstum hluta helguð veiðarfærum og veiðarfæragerð. Fiskiskip hefði lítið gildi án veiðarfæra og þau hafa alla tíð verið ríkur þáttur í árangri í veiðum. Ný og góð veiðarfæri eru þó ekki bein ávísun á árangur því þrátt fyrir allar tækniframfarirnar, tölvuskjáina, veiðarfæranemana, tækin og tólin þá er þekking og færni skipstjórnendanna og sjómannanna alltaf ríkasti þátturinn í því að ná árangri við veiðar. Sumir hafa „nef“ fyrir því hvar fiskinn er að finna þann og þann daginn, aðrir ekki.
Veiðarfæragerð hefur verið samofinn útveginum alla tíð og fullyrða má að það hefur verið gæfa greinarinnar hversu mikil þekking hefur byggst upp í þessari iðn hér heima. Líkt og þrautvanir netagerðarmenn rifja upp hér í blaðinu voru netagerðirnar til muna fleiri fyrir nokkrum áratugum og starfsmenn í hverri skiptu tugum, að minnsta kosti í stærstu útgerðarplássunum. Þá voru enda miklu fleiri bátar í útgerð en eru í dag og allir þurftu sína þjónustu. Tjón á veiðarfærum, festur í botni og alls kyns uppákomur á miðunum þóttu ekki sérstök tíðindi fyrr á árum en slíkt gerist sjaldan í dag,“ segir Jóhann Ólafur Halldórsson meðal annars í inngangi blaðsins.