Fá ekki að taka gjald af byggðakvóta

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur neitað Tálknafjarðarhreppi um leyfi til að leigja byggðakvóta og nýta verðmætin til að efla annað atvinnulíf. Sveitarstjórinn segir að þorpið þurfi að fá að spreyta sig á öðrum atvinnugreinum en fiskvinnslu. Afar ólíklegt sé að þar byggist upp öflugur sjávarútvegur að nýju. Það séu því vonbrigði að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið telji sig ekki hafa lagaheimild til að leyfa sveitarfélaginu að gera tilraun. Þetta kemur fram á ruv.is

Talsverð umræða hefur verið um almennan byggðakvóta sem ekki nýtist sem skyldi við að efla byggðir. Dæmi eru um að aflanum sé landað og hann unninn langt í burtu.  Byggðakvóti Tálknafjarðar hefur ekki nýst til að byggja upp vinnslu þar en Bryndís Sigurðardóttir sveitarstjóri segir að hann nýtist óbeint. „Hér eru trillur sem veiða og þessu er öllu svo landað á Patreksfirði þar sem Tálknfirðingar eru mikið að vinna. Þetta er eitt atvinnusvæði þannig að auðvitað nýtist þetta eitthvað,“ segir Bryndís.

Starfshópur um endurskoðun byggðakvóta lagði til að opnað yrði fyrir möguleika til að nýta verðmætin sem felast í byggðakvóta með öðrum hætti en ekkert hefur verið gert með þær tillögur. „Í ljósi þróunar í sjávarútvegi í fyrirsjáanlegri framtíð þá er afar ólíklegt að á Tálknafirði byggist upp mikill sjávarútvegur. Við þurfum að fá að spreyta okkur í öðrum atvinnugreinum og myndum gjarnan vilja að þetta skref væri stigið; að byggðakvótann mætti leigja, við fengjum honum úthlutað og við gætum leigt hann út að hluta eða öllu leyti og nýtt þetta í innviðauppbyggingu. Gjarnan mega vera einhverjar stífar reglur um í hvað þessir peningar þá mættu fara en þessi litlu sveitarfélög og samfélög sem hafa orðið illa úti í breytingum sem hafa orðið á kvótakerfinu undanfarin 20 ár, þau þurfa búst í einhverja atvinnu,“ segir Bryndís.

Táknafjarðarhreppur vildi nota leigutekjur af byggðakvóta til að byggja hjúkrunarheimili. „Við erum að missa eldra fólkið okkar í burtu af því að það hefur ekki aðstöðu og getur ekki verið. Þetta myndi auka fjölbreytnina í atvinnu og bæta þjónustuna fyrir okkar fólk,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

 

Deila: