Bíður eftir loðnunni á Búðum
„Hér á Búðum er staddur maður nokkur að nafni Mikio Fusada. Hann japanskur fiskkaupandi og starfar hjá fyrirtæki sem heitir Kyokuyo co. LDT. Mikio er mikill Íslandsvinur, svo að tekið sé upp orðfæri sem stundum er haft um hina ríku og frægu. Hann hefur dvalið hér á landi í lengri eða skemmri tíma á hverju ári í rúma þrjá áratugi, hann er orðinn svo heimavanur hér að kunningjar og vinir á Íslandi eru farnir að kalla hann Mikka.“
Svo segir í færslu á heimasíðu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðfirði og segir þar ennfremur:
Fyrir hönd fyrirtækisins sem Mikki starfar hjá kaupir hann síld, makríl og síðast en ekki síst, loðnu. Hann hefur keypt af Loðnuvinnslunni síðan árið 1995 og hann sagðist ávalt hafa verið ánægður með gæði, enda sagðist maðurinn ekki kaupa neitt nema það sem væri fyrsta flokks því hans viðskiptavinir vildu ekkert annað og ættu ekkert minna skilið. En Mikki er áhyggjufullur. Hann hefur stórar áhyggjur af loðnubresti því að Japanir neyta loðnu í miklum mæli. Hann hefur líka áhyggjur af því að verði loðna veidd af aðeins einni þjóð af þeim sem hann er vanur að kaupa af, (Ísland, Noregur og Kanada) en ekki öðrum, verði verðið svo hátt að hinn almenni neytandi í Japan geti ekki keypt sér loðnu til matar. Um þetta ræddum við Mikki á kaffistofunni í frystihúsinu í góðu yfirlæti.
Hann Mikki hefur líka skoðun á fiskveiðistjórnun, enda maðurinn sérfræðingur í þeim efnum, og hann fræddi greinarhöfund heilmikið um aðferðir við að kanna stofnstærðir og þess háttar sem ekki verður farið nánar út í að svo stöddu. Hann talaði um nútíma aðferðarfæði og þær sem notaðar voru áður fyrr og sagði að þær aðferðir dyggðu jafn vel núna og áður. “Það þarf ekki annað en að taka stóran þorsk í febrúar og mars og opna hann, ef hann er fullur af loðnu, þá er stofninn góður, en ef það finnst engin loðna í þorskinum þá er engin loðna” sagði Mikki. Hann talaði líka um hvað margt hefur breyst á Íslandi, sem og í heiminum öllum, á þessum áratugum sem hann hefur starfað við að ferðast um heiminn. En hann Mikki ferðast ekki bara til Íslands til að kaupa fisk, hann fer um allan heim. “Ég er svona 5 til 6 mánuði heima en hina mánuði ársins er ég á ferð og flugi um heiminn, auk þess sem ég ferðast líka innan Japan. En heima á Mikki konu, uppkomna dóttur og tvö barnabörn. Hann sýndi greinarhöfundi stoltur myndir af barnabörnunum í símanum sínum, 15 ára stúlka og 13 ára drengur, afar myndarlegir unglingar. En við það að kíkja á skjáinn hjá Mikka mátti sjá að uppistaðan í myndunum hans voru myndir af fiskum… loðnu og aftur loðnu. Misjafnt höfumst við að, mannfólkið.
Eftir nokkuð langt spjall um áhyggjur Mikka af framtíðinni hvað loðnubrest varðar, við Íslendingar getum kannski sett okkur í þau spor að fá ekki þorsk, eða lambakjöt, eða kartöflur, eða eitthvað sem okkur sem þjóð þykir ómissandi, þá tókum við upp léttara hjal. Við fórum að tala um bíla. Þá skemmtilegu staðreynd að japanskir bílar eru vinsælir á Íslandi. Að vonum var Mikki ánægður með það og sagði brosandi að það væri ekkert vit í öðru. Sjálfur ætti hann Lexsus og konan hans Toyota bíl. Hann hafði orð á því að þegar hann kom fyrst til Íslands fyrir margt löngu síðan þá hafi hér verið mikið af rússneskum bílum, “en nú eru Subaru komnir í staðinn fyrir Lada” sagði Mikio Fusada að lokum og brosti svo breitt að augun hurfu á bak við brosið.