Aflabrögðin eru góð

Deila:

Víkingur AK er nú á leið til Vopnafjarðar með fullfermi af kolmunna sem fékkst sunnarlega í færeysku lögsögunni. Er þetta annar fullfermistúr skipsins á skömmum tíma en um 2.600 tonnum af kolmunna var landað á Vopnafirði á miðvikudaginn fyrir páska.

,,Aflabrögðin eru góð. Við vorum um þrjá og hálfan sólarhring á veiðum og fengum oftast um 400 tonn í holi eftir 12-14 tíma tog. Mér reiknast til að aflinn nú sé um 2.600 tonn en það er fullfermi miðað við að kæling aflans sé með sem bestum hætti,“ sagði Hjalti Einarsson skipstjóri er rætt var við hann  á heimasíðu HB Granda síðdegis í gær. Stefnan hafði þá verið sett á Vopnafjörð en þangað á Víkingur að koma um kl. 21 í kvöld.

Að sögn Hjalta var Víkingur að veiðum syðst í færeysku lögsögunni en hann segir dagamun á því hve mörg skip eru á veiðisvæðinu.

,,Það var mun meira af skipum á svæðinu dagana fyrir páska. Veiði sunnan línunnar er nú hverfandi og það er helst að einhver hollensk skip séu þar enn. Ég held að Norðmennirnir séu búnir að veiða leyfilegt magn og hið sama gæti átt við um Skota og Íra.

Hjalti segir að veiðin nú sé ekki ólík því sem menn eigi að venjast á þessum árstíma og ástandið á kolmunnanum virðist vera gott. Stærðin sé hin sama og menn eru vanir.

Deila: