Frost, funi og allt þar á milli í starfsemi Hafnareyrar

Deila:

Starfsmenn Hafnareyrar frysta og sjóða, landa fiski og skipa út fiski, smíða úr tré og járni og sinna ótal mörgu öðru sem upp mætti telja. Þarna sameinast undir sömu „regnhlífinni“ mismunandi greinar starfsemi og iðnaðar.

Sambúðin býður upp á fjölbreytt vinnuumhverfi og hreyfanlegan mannskap eftir þörfum. Menn úr löndunarþjónustu eru stundum kallaðir til starfa á verkstæðinu þegar mikið liggur við. Verkstæðismenn fara á sama hátt í löndun eða útskipun þegar hjólin snúast hvað hraðast á vertíðum.

„Við erum með alls um 45 fastráðna starfsmenn en þegar best lætur á vertíðum eru þeir yfir 70. Fyrirtækið hefur margar vistarverur í fjölbreyttum rekstri. Í nógu er að snúast og ég er mikið á ferðinni til að fylgjast með og hitta fólk. Fjarri því að hér séu öll samskipti gegnum tölvu og síma!“ segir Trausti Hjaltason, framkvæmdastjóri Hafnareyrar ehf. Í samtali á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Hafnareyri er dótturfélag Vinnslustöðvarinnar, stofnað á árinu 2015 og þjónar Vinnslustöðinni til sjós og lands en einnig öðrum viðskiptavinum.

Undir Hafnareyri heyrir

  • frystigeymslan Kleifarfrost á Eiði. Þar komast fyrir 10.000 bretti í stórbrotnu rekkakerfi og tölvustýrðu umhverfi sem á sér hvergi hliðstæðu í víðri veröld.
  • nýtt verkstæði við Hlíðarveg fyrir trésmíði, vélaviðgerðir og járnsmíði. Þar er líka lager, geymsla og glæsilegar vistarverur starfsmanna.
  • löndunar- og ísþjónusta.
  • Stakkshús, saltfiskgeymsla.

Trausti tók við framkvæmdastjórastarfinu haustið 2017. Hann var áður sérfræðingur hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja og framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Vestmannaeyja. Hann er með meistarapróf í lögfræði og BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Trausti flutti með fjölskyldu sinni til Vestmannaeyja árið 1990, þá átta ára gamall. Það dugar til að teljast gegnheill Eyjamaður. Talsverðar líkur eru hins vegar á því að hann hefði verið talinn aðfluttur utanbæjarmaður á Akureyri hefði hann flutt þangað á níunda ári.

Mikið var um dýrðir á dögunum þegar Hafnareyri tók nýja verkstæðishúsið í gagnið og bauð til teitis í tilefni tímamótanna.

„Þetta er allt annað líf fyrir bæði starfsfólk og viðskiptavini. Aðstæður allar margfalt betri en á gamla staðnum, mikið húsrými og ný tæki að hluta,“ segir Trausti. „Hafnareyri sinnir fyrst og fremst sjávarútveginum með viðhaldi og þjónustu tilheyrandi amstri hversdagsins í vinnslu í landi og í skipum. Verkstæðisliðið gengur frá í landvinnslunni eftir eina vertíð og undirbýr þá næstu með tilheyrandi viðhaldi og breytingum á vélum, færiböndum og eftir atvikum í vinnslusölum.

Vinnslustöðin er langstærsti viðskiptavinur Hafnareyrar en við þjónum að sjálfsögðu öðrum fyrirtækjum líka, til dæmis með löndun, ís og geymslu í frosti.

Kleifarfrost er fullkomnasta frystigeymsla sem völ er á hérlendis og þótt víðar væri leitað. Við höfum laust rými og mjög álitlegt er að geyma þar sjávarafurðir við allra bestu aðstæður.“

 

Deila: