Glimrandi veiði á Víkinni

Deila:

Óhætt er að segja að ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE séu að gera það gott þessa dagana. Togararnir lönduðu báðir fullfermi í Eyjum á miðvikudag og aftur á sunnudag. Haft er eftir Jóni Valgeirssyni á Bergi að bókstaflega ekkert mál sé að fá ýsu og þorsk en að meira þurfi að hafa fyrir öðrum tegundum. Á vef Síldarvinnslunnar er haft eftir Jóni:

„Í fyrri túrnum vorum við á Víkinni og Ingólfshöfða og þar fékkst dálítið af kola. Í seinni túrnum vorum við hinsvegar í Háadýpi og á Pétursey og þá fékkst töluvert af ufsa sem var fagnaðarefni. Það getur enginn kvartað undan aflabrögðunum og það tekur einn og hálfan til tvo sólarhringa að fylla skip eins og okkar. Við fórum út eftir löndun á sunnudag og nú erum við á Víkinni í glimrandi fiskiríi. Hér fæst ýsa og þorskur og það er hinn fallegasti fiskur.“

Þar er líka rætt við Birgi Þór Sverisson, skipstjóra á Vestmannaey sem segir samsetningu aflans helstu áskorunina.

Deila: