Leggja til veiðar á 508 tonnum af sæbjúgum á Faxaflóa
Hafrannsóknastofnun hefur lagt fram nýjar tillögur um hámarksveiðar á sæbjúgum í kjölfar óskar Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið eftir ráðgjöf um veiðar á sæbjúgum á tímabilinu 1. mars 2019 til og með 31. ágúst 2019 byggt á fleiri veiðisvæðum en Hafrannsóknastofnun hefur áður veitt ráðgjöf fyrir. Veiðisvæðin byggja á drögum á reglugerð sem kynnt voru á samráðsgátt stjórnvalda þann 11. desember 2018.
Hafrannsóknastofnun ráðleggur í samræmi við varúðarnálgun að afli sæbjúgna á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst 2019 á svæðum verði eftirfarandi:
- Svæði A. Vestfirðir Norður-Aðalvík: 0 tonn
- Svæði B. Vestfirðir miðsvæði: 66 tonn
- Svæði C. Vestfirðir suðursvæði: 50 tonn
- Svæði D. Utanverður Breiðafjörður: 56 tonn
- Svæði E. Faxaflói: 508 tonn
- Svæði F. Austurland norðursvæði: 0 tonn
- Svæði G. Austurland miðsvæði: 0 tonn
- Svæði H. Austurland suðursvæði: 203 tonn
Einnig er lagt til að veiðar utan skilgreindra veiðisvæða séu háðar leyfum til tilraunaveiða. Þessi ráðgjöf kemur í stað ráðgjafar sem birt var 13. júní 2018.
Á svæði A veiddust 101 tonn haustið 2018 þangað til svæðinu var lokað 30 nóvember. Á svæði B veiddust 525 tonn sumarið 2018 og 200 tonn veturinn 2018/2019 (til loka janúar). Engar veiðar hafa verið skráðar af svæði C. Á svæði D voru veidd 286 tonn sumarið 2018 og 97 tonn haustið 2018. Á svæði E hafa verið veidd 136 tonn á fiskveiðiárinu 2018/2019. Innan eldra smærra afmarkaðs veiðisvæðis innan svæða F og G veiddust 976 tonn haustið 2018 fram að 16 nóvember þegar svæðinu var lokað. Á svæði H veiddust 1757 tonn fiskveiðiárið 2017/2018 en um 500 tonn veturinn 2018/2019 (til loka janúar).