Með 60 tonn eftir tvo daga á veiðum

Deila:

Ísfisktogarinn Viðey RE kom til Reykjavíkur snemma á  föstudagmorgun með um 60 tonn af fiski eftir tvo daga á veiðum. Skipstjórinn, Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), segir að túrinn hafi verið stuttur vegna þess að togvírar og toghlerar hafi þarfnast viðhalds. ,,Við lönduðum af og til utan Reykjavíkur í haust og fengum ekki þessa þjónustu fyrr en nú,” segir Elli í samtali á heimasíðu Brims..

Viðey var á veiðum á Halamiðum í síðustu veiðiferð og Elli segist vera þokkalega ánægður með aflann þótt túrinn hafi verið stuttur. Reyndar hafi aflinn verið upp og ofan í allt haust. Mikill samdráttur í gullkarfakvótanum setur Viðey og flesta aðra togara í skringilega stöðu enda getur verið snúið að forðast karfann.

,,Suðursvæðið er lítið stundað og menn þora ekki að fara þangað vegna gullkarfans,” segir Elli en meðal svæða, sem líða fyrir það er Fjallasvæðið. Elli segir að Víkurálsins bíði sennilega sömu örlög. Menn þori ekki að fara þangað vegna karfakvótans.

,,Heilt yfir gengur lífið samt sinn vanagang. Ufsinn kemur og fer og menn fá alltaf ufsaskot annað slagið.”

Viðey heldur aftur til veiða strax að aflokinni löndun og eftir að vírar og hlerar hafa verið yfirfarnir.

,,Við förum aftur á Vestfjarðamið. Það spáir skítaveðri frá föstudegi til sunnudags og við getum búið okkur undir NA brælu næstu þrjá sólarhringana. Það er byrjað að blása,” segir Elli skipstjóri.

 

Deila: