Lítið af þorski á Færeyjabanka
Enn er mjög lítið um þorsk á Færeyjabanka samkvæmt rannsóknum færeysku Hafrannsóknastofnunarinnar. Þar er hins vegar mikið um ýsu og töluvert af smáýsu sem gefur vonir um vaxandi nýliðun.
Mjög lítið hefur verið um þorsk á Færeyjabanka undanfarin ár og engar veiðar leyfðar á þorski þar. Ýsustofninn á Bankanum virðist vera í góðum vexti og var mikið um hana í leiðöngrum þessa árs og þess síðasta.
Frekar lítið virðist vera af ufsa, löngu og skötusel á Bankanum en magnið er mjög breytilegt milli ára. Í þessum leiðangri fékkst ein lúða, en síðast fékkst lúða árið 2014.