Marel hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands

Deila:

Marel hefur hlotið Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2019 sem veitt voru í 31. skipti við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel tók við verðlaununum frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og Björgólfi Jóhannssyni formanni stjórnar Íslandsstofu.

Marel hlýtur verðlaunin fyrir að hafa náð framúrskarandi árangri í framleiðslu og sölu á hátæknibúnaði og kerfum fyrir matvælavinnslu. Í rökstuðningi dómnefndar segir einnig: Marel hefur nú til fjölda ára verið í fararbroddi í þróun hátæknibúnaðar sem notaður er til vinnslu á kjöti, kjúklingi og fiski, allt frá slátrun til pökkunar.

Uppbygging Marel undanfarin 15 ár hefur verið einstök og skilað félaginu í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Fyrirtækið hefur nú þróast í alþjóðlegt fyrirtæki með 6.000 starfsmenn, skrifstofur starfræktar í 33 löndum og umboðsmenn í yfir 100 löndum. Nýsköpun hefur einkennt Marel frá fyrstu tíð.

Fyrirtækið ver að jafnaði 6% af heildartekjum í nýsköpun árlega, eða sem samsvaraði 74 milljónum evra árið 2018. Þetta hefur skilað sér í öflugri vöruþróun, en á síðustu þremur árum hefur Marel þróað 50 nýjar vörutegundir. Marel stendur nú á tímamótum, en ákveðið hefur verið að skrá hlutabréf félagsins í Euronext kauphöllina í Amsterdam á þessu ári.

„Það eru fá fyrirtæki með íslenskar rætur sem hafa náð eins langt og Marel. Með þrautseigju að vopni og framsýni – og ekki síst ötulli markaðssókn – hefur forsvarsmönnum fyrirtækisins tekist að gera Marel að einu fremsta útflutningsfyrirtæki Íslands,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður stjórnar Íslandsstofu meðal annars um Marel í ræðu sinni á Bessastöðum.

„Þetta er í annað sinn sem Marel hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands. Árið 1990 var Marel með 33 starfsmenn og 3,3 milljónir evra í tekjur og var þá þegar farið að flytja út vörur til 20 landa. Þegar litið er til baka er framsýni og hugrekki frumkvöðla og starfsmanna Marel ótrúleg.

„Með skýrri framtíðarsýn og með því að setja viðskiptavini okkar alltaf í fyrsta sæti höfum við umbylt Marel frá sprota í alþjóðlegan leiðtoga með 6000 starfsmenn í yfir 30 löndum með 1,2 milljarð evra í tekjur. Í samstarfi við viðskiptavini okkar um heim allan erum við að gera matvæli öruggari, sjálfbærari og hagkvæmari. Ég tek stoltur við þessum verðlaunum fyrir hönd allra starfsmanna Marel, núverandi og þáverandi. Nú líkt og þá munu þau verða okkur hvatning til að halda áfram veginn,“ sagði Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel sagði í ræðu sinni á Bessastöðum.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 31. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Nox Medical, Icelandair Group, HB Grandi, Truenorth, CCP og Bláa lónið, og á síðasta ári hlaut Sjóklæðagerðin – 66°Norður verðlaunin.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Örnólfur Thorsson, frá embætti forseta Íslands, Runólfur Smári Steindórsson, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Katrín Olga Jóhannesdóttir frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Björgólfur Jóhannsson frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

VERÐLAUNAGRIPURINN 

Verðlaunagripurinn í ár er gerður af listakonunni Elínu Hansdóttur og heitir verkið Fjögurra laufa Smári. Listamaðurinn segir um verk sitt: „Hugsanlega er fágæti fjögurra laufa smárans ástæða þess að hann er algengasta táknmynd lánsemi í hinum vestræna heimi. Í fágætinu er fólgin sú sögn að lán sé ekki sjálfgefið; þvert á móti helst það í hendur við þá sjaldgæfu elju og hugrekki sem þarf til að nýta þau tækifæri sem gefast.“

 

Deila: