Góður afli á skömmum tíma

Deila:

Börkur NK kom til Neskaupstaðar með síldarafla í fyrrinótt. Það hófst strax vinnsla á aflanum í fiskiðjuverinu og gert er ráð fyrir að henni ljúki í kvöld. Þegar lokið verður við að vinna síldina hefst vinnsla á grálúðu og síðan fær starfsfólkið í fiskiðjuverinu helgarfrí. Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, segir að veiðiferðin hafi gengið vel.

„Við vorum að veiðum norðaustast í færeysku lögsögunni um 350 mílur frá Norðfirði. Aflinn, sem er um 1.500 tonn, fékkst í fjórum holum á 26 klukkustundum. Við vorum heppnir og hittum afar vel á þetta,“ segir Hjörvar í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Síldveiðiskipin þrjú sem landa afla í fiskiðjuverið eru öll í höfn þessa stundina en Bjarni Ólafsson AK mun halda til síldveiða í dag og er þess vænst að hann verði kominn til löndunar á mánudag. Beitir NK mun síðan halda til veiða annað kvöld.
Á myndinni er síld landað úr Berki NK í morgun. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: