Skrokkarnir komnir til Noregs
Flutningaskipið Jumbo Jubilee er komið til Brattvåg í Noregi með fjóra skipsskrokka fyrir íslensk fyrirtæki. Skrokkarnir voru smíðaðir í Víetnam og fluttir sjóleiðis með þessu risavaxna flutningaskipi í Vard skipasmíðastöðina, þar sem skipin verða fullgerð.
Tvö skipanna eru fyrir Gjögur hf. og koma í stað eldri skipa, Varðar og Áskels, sem seld hafa verið til Fisk Seafood á Sauðárkróki. Hin skipin tvö eru fyrir Skinney Þinganes og bera nöfnin Steinunn og Þinganes.
Þessi fjögur skip eru í sjö skipa pakka. Tvö til viðbótar eru fyrir Berg-Huginn dótturfélag Síldarvinnslunnar og leysa af hólmi Bergey og Vestmannaey. Þau skip eru lengra komin í smíðinni og hefur Vestmannaey þegar verið sjósett. Sjöunda skipið er síðan fyrir Útgerðarfélag Akureyringa.