Fjallað um málefni eyríkja á Möltu

Deila:

Sjávarútvegsráðuneytið Færeyja stendur þessa dagana fyrir ráðstefnu í Valetta á Möltu, sem ber nafnið Large Ocean Nations Forum on Blue Economy. Ráðstefnan fjallar um eyjasamfélög þar sem bætt nýting auðlinda hafsins verður aðalviðfangsefnið. Á ráðstefnunni verður farið yfir átök um auðlindanýtingu  í löndum eins og Íslandi, Grænlandi, Seychelleyjum, Máritíus, Papúa Nýju Gíneu, Grænhöfðaeyjum, Sao Tome og Principe, Vanuatu og Grenada. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins taka einnig þátt í ráðstefnunni.

Markmið ráðstefnunnar er að stuðla auknu samstarfi og samskiptum um áætlanir sem geta stutt við þróun atvinnulífsins í eyjasamfélögum í heiminum. Það snýst sérstaklega um að koma á fót nýjum atvinnugreinum og mörkuðum þar sem eyjasamfélögin geta tekið þátt í og nýtt um leið þá kosti sem samfélögin búa yfir.

Á ráðstefnunni í dag og á morgun munu fulltrúar þátttökulandanna leggja fram áætlanir um nýjar leiðir í nýtingu auðlinda hafsins. Áhersla verður lögð á möguleika sem nú eru ekki eða lítið nýttir. Fulltrúi Færeyja, Ólavur Gregersen frá Ocean Rainforest, mun kynna tilraunir með vinnslu á þara og Sissal Kristiansen kynnir tilraunir með að gera tískuklæði úr þara og fiskiroði.

Einn af megin þáttum ráðstefnunnar er hvernig sjálfbær framleiðsla getur þróað nýjar atvinnugreinar og þannig hnýtt saman nýjar virðiskeðjur í framleiðslu og iðnaði. Í því sambandi má nefna tískuvörur, en í þær má nota hráefni úr hafinu í stað ýmissa mengandi efna. Eyjasamfélögin sem taka á þátt í ráðstefnunni standa öll frammi fyrir ýmsum áskorunum og beita mismunandi leiðum til að takast á við þær.

Á miðvikudeginum mun Högni Hoydal leiða sérstakan fund þar sem fulltrúar landanna auk fulltrúa FAO og ESB taka afstöðu til þess hvernig ráðstefnan geti orðið hvati að frekara samstarfi. Markmiðið er að tryggja að góð reynsla frá eyjasamfélögum heimsins geti leitt til þróunarnýrra atvinnugreina sem byggja á auðlindum hafsins. Jafnfram verður kannað hvort grundvöllur sé fyrir að halda slíkar ráðstefnur í framtíðinni, þar sem Færeyjar gætu verið upplagður kostur fyrir eina slíka.

Ráðstefnan er ávöxtur formennsku Færeyja í norðurlandasamstarfinu á sviði sjávarútvegs árið 2015. Sjávarútvegsráðuneytið í Færeyjum, norræna ráðherraráðð og NORA, samstarf þjóða við Norður-Atlantshaf, Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna og Breska samveldið standa að ráðstefnunni.

 

Deila: