Krókaaflamark haldi sérstöðu sinni

Deila:

Nýlokið er aðalfundi smábátafélagsins Skalla.  Fundurinn var haldinn á Siglufirði og var mæting góð og fjölmargar ályktanir samþykktar.

Meðal þess sem fjallað var um var ósk Samtaka smærri útgerða til sjávarútvegsráðherra að aflétta öllum veiðarfæratakmörkunum krókaaflamarksbáta.  Heimila þeim veiðar í dragnót, troll og net.  Einhugur var meðal fundarmanna að mótmæla þessum hugmyndum sem telja það mikið ábyrgðarleysi að fara fram á umræddar breytingar.

Ályktun:

Aðalfundur Skalla leggst alfarið gegn öllum hugmyndum um breytingar á krókaafla-markskerfinu með því að fella úr gildi veiðarfæratakmarkanir sem í gildi eru.

Krókaaflamarksbátar njóta þá sérstöðu að vera eingöngu heimilt að nota línu og handfæri við veiðar á bolfiski.  Verðmæti þess til gæða og markaðssetningar eru óumdeild og mikið ábyrgðarleysi að hrófla við slíku.

Aðalfundur Skalla hvetur markaðsmenn, fiskkaupendur og fiskseljendur að koma að þessu máli og mótmæla öllum hugmyndum um sameiningu veiðikerfa.  Skalli bendir á að breytingar af þessu tagi verða til þess að útgerð verður einsleitari og skapi neikvætt orðspor fyrir íslenskan sjávarútveg.

Eskey ÓF, ljósmynd fengin af skipa- og bátasíðunni http://skoger.123.is/

 

 

Deila: