Steiktur þorskur með grænni sósu
Þorskurinn er kallaður ýmsum nöfnum. Algengt er að segja „sá guli“ um þennan góða fisk. Hér fáum við hins vegar útgáfu af honum, sem ekki er algeng, eða þorsk í grænu. Liturinn vísar reyndar til sósunnar með fiskinum en víst er að hann er jafngóður hvernig sem sósan er á litinn. En þessa góðu uppskrift fundum við á síðunni fiskur í matinn, en þar er að finna mikið af góðum uppskriftum að mjög góðum fiskréttum.
Innihald:
- 800 g þorskur
- 2 stk hvítlauksgeirar
- Rósmarín
- Ólífuolía
- Salt og pipar
Græn sósa
- 2 msk steinselja, fínsöxuð
- 1 msk minta, fínsöxuð
- 1 msk basil, fínsaxað
- 1 hvítlauksgeiri, fínsaxaður
- 1 msk kapers, saxað
- 1 msk Dijon-sinnep
- 1 msk rauðvínsedik
- Jómfrúarolía
Aðferð:
Þorskurinn er brúnaður í ólífuolíu á pönnu í 2 mín. á hvorri hlið. Hvítlauksgeirar og rósmarín er sett með í olíuna og fiskurinn er saltaður og pipraður. Fiskurinn er síðan settur í eldfast mót og bakaður við 180°C í 6 mín.
Græn sósa:
Setjið kryddjurtirnar og kapersið í skál og látið ólífuolíu fljóta yfir. Blandið þá sinnepinu og edikinu saman við og kryddið með salti og pipar. Bætið við ólífuolíu ef þurfa þykir. Berið fram með þorskinum.