Skip HB Granda hætt á kolmunna

Deila:

Uppsjávarveiðiskip HB Granda, Venus NS og Víkingur AK, hafa lokið kolmunnaveiðum á þessu ári. Síðustu landanirnar voru á Eskifirði fyrir helgi þar sem nú er unnið að endurbótum á fiskmjölsverksmiðju félagsins á Vopnafirði. Samtals voru skipin með tæplega 3.000 tonna afla í þessum löndunum.

,,Það má eiginlega segja að það hafi verið sjálfhætt á kolmunnaveiðunum á þessum tímapunkti. Jólahátíðin er framundan, spáð var fjögurra daga brælu og aflinn hefur verið slakur. Því var ákveðið að halda heim, þótt við værum ekki komnir nema með um 800 tonn, og láta gott heita á þessu ári. Það er eitthvað eftir af kvótanum en það mun nýtast okkur á næsta ári,“ segir Hjalti Einarsson í samtali á heimasíðu HB Granda

Að sögn Hjalta er nokkur óvissa framundan en skipin verða í höfn í Reykjavík um jól og áramót.

,,Það er mjög jákvætt að loðna hafi fundist í þorski á Vestfjarðamiðum en það skýrist ekkert varðandi kvótann fyrr en eftir rannsóknaleiðangur og mælingar á loðnustofninum í næsta mánuði,“ segir Hjalti Einarsson.

Deila: