Það var að hrökkva eða stökkva

Deila:

,,Ég stóð á ákveðnum tímamótum þegar mér bauðst þetta starf. Ég er að verða fimmtugur og það var nú eða aldrei, að hrökkva eða stökkva. Ég valdi að stökkva og skipta um starf. Þetta var ekki auðveld ákvörðun enda hefur mér liðið vel og ég kveð Loðnuvinnsluna og áhöfnina á Hoffelli SU með söknuði.“

Þetta segir Bergur Einarsson, skipstjóri á Hoffelli, sem senn tekur við skipstjórn á Venusi NS á móti Theódór Þórðarsyni. Bergur segir að honum hafi verið boðið starfið og það hafi ráðið úrslitum við ákvörðun hans að góðir menn séu í áhöfninni, HB Grandi sé sterkt fyrirtæki og kvótastaðan sé góð.

Fór ungur til sjós

Bergur er borinn og barnfæddur Fáskrúðsfirðingur og hann segist ekki vera á leið frá Fáskrúðsfirði þótt hann skipti um starf. Líkt og fleiri í sjávarplássunum á Austfjörðum fór Bergur ungur til sjós.

,,Ég flosnaði upp úr skóla og var ekki nema 15 ára gamall þegar ég fékk vinnu á Sólborgu SU. Hermann Steinsson var þá skipstjóri en ég var í áhöfn Sólborgar í eitt ár. Leiðin lá næst yfir á togarann Álftafell SU frá Stöðvarfirði. Svo var ég heimaskipunum Hoffelli SU, Ljósafelli SU og Búðafelli SU allt þar til að ég fór í stýrimannaskólann 1991. Ég var í skólanum á Dalvík og útskrifaðist 1993. Eftir skólann fór ég sem 2. stýrimaður á togarann Ljósafell, sem Albert Stefánsson og Ólafur Gunnarsson voru þá með. Ólafur tók við skipstjórninni 1994 og ég var með honum allt þar til að ég færði mig yfir á uppsjávarskipið Hoffell sem stýrimaður árið 1998. Helgi Kristjánsson var þá skipstjóri en hann hafði siglt skipinu heim frá Írlandi ári fyrr. Eftir að Helgi hætti árið 1999 tók ég við skipstjórninni og hef verið skipstjóri á Hoffelli allar götur síðan.“

Þekkti ekkert til nótaveiða

Bergur segir að það hafi verið mikil viðbrigði að flytjast yfir á uppsjávarveiðiskip eftir að hafa alist upp á togurunum.

,,Framan af var Hoffell ekki útbúið til nótaveiða en úr því var bætt árið 2001. Ég þekkti ekkert til nótaveiða en lærði handtökin af skipverjum um borð í öðrum skipum. Ég lærði líka mikið af Helga Kristjánssyni og í raun er maður alltaf að læra eitthvað nýtt,“ segir Bergur en hann segist horfa bjartsýnn fram á veginn.

,,Ég veit að það verður ekki auðvelt að koma í stað Gulla sem skipstjóri á Venusi en þannig á það að vera. Mitt hlutverk verður að standa mig sem best. Ég er þakklátur fyrir þau ár sem ég átti á Hoffelli og kveð vinnufélaga og stjórnendur Loðnuvinnslunnar með söknuði.“

Minni hátíðardagur

Þar sem sjómannadagurinn er í dag er við hæfi að enda þetta spjall með því að spyrja Berg hvort hann og aðrir Fáskrúðsfirðingar haldi daginn hátíðlegan.

,,Sjómannadagurinn er auðvitað sérstakur hátíðisdagur, ekki síst í sjávarplássum landsins. Ég er þó ekki einn um þá skoðun að þetta var miklu meiri hátíðisdagur hér áður fyrr. Ástæðan er vafalaust sú að skipunum hefur fækkað mikið frá því sem var. Á árum áður var vart til sú fjölskylda að einhver úr henni væri ekki sjómaður. Sá tími er liðinn,“ segir Bergur Einarsson.

 

 

Deila: