Það er gaman að vinna í fiski
„Ég hef alltaf haft gaman af því að vinna í fiski. Annars hefði ég ekki verið svona lengi í þessu starfi,“ segir Ragnheiður Sigurkarlsdóttir í Vestmannaeyjum sem steig sín fyrstu skref í fiskvinnslu í sumarstarfi í Þorlákshöfn árið 1977, fluttist síðan til Vestmannaeyja og gerði fiskvinnu að sínu lífsstarfi. Rætt er við Ragnheiði í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.
Ragnheiður starfar í dag á snyrtilínunni í fiskvinnslu Leo Seafood í Vestmannaeyjum sem áður hét Goothab í Nöf en áður starfaði hún hjá Ísfélagi Vestmannaeyja. Hennar aðal starf hefur því í gegnum tíðina snúist um vinnslu á bolfiski en einnig vann hún í uppsjávarvinnslu Ísfélagsins á sínum tíma.
Ragnheiður hefur nú minnkað við sig starfshlutfall sem hún er ánægð með að sé í boði hjá fyrirtækinu en hlutastörf segir hún almennt ekki tíðkast í fiskvinnslu í dag.
Langur vinnudagur
„Almennt er miðað við að vinnudagurinn hjá okkur sé frá kl. 7 á morgnana til kl. 15 en þetta getur verið breytilegt eftir fiskafla. Oft er byrjað fyrr, eða kl. 5 á morgnana þannig að vinnudagurinn getur verið langur hjá starfsfólkinu. Í dag vinn ég frá kl. 8 til 13 og líkar þetta fyrirkomulag mjög vel. Við erum eina fiskvinnslan hér í Eyjum þar sem í boði er að vinna hlutastarf. Þetta hentar bæði þeim sem eldri eru og vilja minnka við sig vinnu en einnig yngri konunum sem kannski eru með börn og hafa ekki tök á að byrja snemma á morgnana eða vinna langt fram á daginn,“ segir Ragnheiður sem hefur í gegnum tíðina kynnst fjölbreyttum störfum í fiskvinnslunni, allt frá tækjavinnu til snyrtingar en í dag vinnur hún á snyrtilínunni.
Hjá Leo Seafood voru fyrir skömmu gerðar tæknibreytingar og tekin í notkun vatnsskurðarvél sem breytir talsvert vinnunni í vinnslunni og snyrtingunni. „Ég hef trú á því að þessi nýja tækni sem er að koma í vinnslunni eigi eftir að breyta miklu á þessum vinnustöðum. Það þarf samt eftir sem áður að taka flökin og snyrta áður en þau fara í bitaskurðinn en vélin sker t.d. beingarðinn úr þannig að vinnslan gengur hraðar en áður. Afköstin eru meiri,“ segir Ragnheiður.
Aldrei verið létt að vinna í fiski
Á löngum ferli í fiskvinnslunni segist Ragnheiður hafa upplifað miklar breytingar. Í dag sé meira vélrænt og af sem áður var þegar þurfti að bera yfir 20 kílóa fiskbakka á höndum. Líkamlega erfiðið hafi minnkað.
„Störfin eru vissulega léttari hvað þetta varðar en það hefur samt aldrei talist létt að vinna í fiski. Það tekur líka á að vinna á snyrtilínu, sér í lagi er álag á axlir og skurðarúlnliðinn þannig að líkamlega álagið er alltaf til staðar. En í snyrtilínunni sem við erum komin með núna höfum við stóla til að sitja á þannig að álagið á fætur er ekki eins mikið og áður. Það finnst mér mikill munur.“
Eitt af því sem tekið hefur breytingum í áranna rás er launafyrirkomulagið en á sínum tíma var einstaklingsbónuskerfið afnumið en hópbónuskerfi tíðkast enn. Ragnheiður segir tekjumöguleikana hafa verið meiri þegar einstaklingsbónusinn var og hét. „Mín tilfinning er sú að á þeim tíma hafi tekjurnar hlutfallslega verið meiri en í dag. Ég tel að menn hafi samið af sér þegar bónusinn var færður inn í tímakaupið en vissulega voru líka ókostir við einstaklingsbónuskerfið. Þetta kerfi var mjög slítandi og sér í lagi fyrir þær konur sem voru að vinna á borði,“ segir Ragnheiður.
Handapatið virkar líka!
Á vinnustað Ragnheiðar er nú um helmingur starfmannahópsins af erlendu bergi brotinn. Hún segir erlendu starfsmennina prýðisfólk sem margt hvert hafi búið lengi og starfað í Eyjum. „Samskiptin ganga ágætlega. Við tölum saman einhverja útgáfu af ensku með pólsku eða rúmensku ívafi ef á þarf að halda. Það hefst fyrir rest að gera sig skiljanlega.
Erfiðast er þegar um er að ræða fólk sem ekki talar neina ensku. En þá virkar handapatið líka vel,“ segir Ragnheiður og hlær. Hún segist fátt geta út á fiskvinnuna sett annað en að launakjörin mættu vera betri.
„Þetta er vanmetið starf. Margir líta niður á fiskvinnsluna almennt og þau viðhorf eru frekast áberandi hjá fólki sem hefur ekki kynnst því að vinna í fiski. Það verður að viðurkennast að fólk lítur meira upp til starfa þar sem kjörin eru betri því þegar allt kemur til alls þá ráða kjörin alltaf miklu um viðhorf til starfa. En ég hef notið þess að vinna í fiski og geri enn,“ segir Ragnheiður.
Myndir Guðmundur Alfreðsson.