Strokulöxum fer fækkandi

Deila:

„Staðreyndin er sú að strok laxa úr eldi hefur minnkað gríðarlega á liðnum árum enda ekki við öðru að búast þegar notaður er nýjasti búnaður og tækni við eldið. Tölur frá Noregi þar sem framleitt voru rúmlega 1,2 milljónir tonna árið 2017 sýna að ríflega 15 þúsund laxar struku, sem þýðir að 0,001 strokulax fyrir hvert tonn sem framleitt er. Staðreyndin er einnig sú að séu tölur í Noregi skoðaðar aftur til ársins 2001 þá hefur talan einn strokulax fyrir hvert tonn framleitt aldrei verið raunveruleg.“ Þetta segir dr. Þorleifur Ágústsson í grein á vef Fiskeldisblaðsins. Greinin er svo hljóðandi:

„Mikið hefur verið rætt um mikilvægi þess að vernda villta laxinn. Því geta allir verið sammála. Rétt er þó að benda á að þegar verið er að tala um lífríki sem gjarnan er undir áhrifum fjölmargra þátta þá henta illa að vera með fyrirframgefnar niðurstöður og nota því til staðfestingar reiknikúnstir sem líta vel út í excel skjali.

Þannig er það með laxinn eins og önnur dýr jarðarinnar að náttúran býr þeim ákveðin skilyrði. Í gegnum náttúruval hefur svo laxinn eins og önnur dýr þróast til að þess eins að lifa af og koma afkvæmum sínum áfram.

Um daginn átti ég spjall við excel sérfræðing. Sá var sprenglærður en ekki í lífvísindum. Þrátt fyrir að sá hinn sami segðist þekkja laxinn vel – svo vel að honum gengi yfirleitt vel við veiðar. Sérfræðingnum var mikið niðri fyrir og vildi ólmur segja mér hvernig í pottinn væri búið með laxinn og líf hans í íslenskum ám. Mér þótti það áhugvart og hellti uppá kaffi – því ég reiknaði með að þetta yrði bæði fróðlegt og langt. Þrátt fyrir að ég hafi þar haft á röngu að standa finnst mér rétt að þið fáið að heyra þessar útskýringar og svar mitt við þeim (maður reynir jú oft að bera fyrir sig staðreyndir ef það skyldi hjálpa til við að koma umræðunni í betra horf).

Látum sérfræðinginn hafa orðið: „Eldishrygna sem sleppur og fer upp í íslenska á til að hrygna hefur að meðaltali 6000 hrogn sé miðað við 4kg fisk – og það sleppur einn fiskur af hverju tonni sem alið er í sjó. Endurheimtur á íslandi eru að meðaltali 2% og því má nærri geta að einn eldisfiskur verður að 120 nýjum blendingum sem ganga til sjávar og það er ekkert minna en dauðadómur fyrir íslenska laxá“.

Skoðum þetta nánar:  Þegar fjallað er um hættu þá sem fylgir stroki laxa úr eldi er nauðsynlegt að skoða rauntölur og niðurstöður rannsókna en ekki að stunda reiknikúnstir líkt og sérfræðingurinn gerir.

Staðreyndin er sú að strok laxa úr eldi hefur minnkað gríðarlega á liðnum árum enda ekki við öðru að búast þegar notaður er nýjasti búnaður og tækni við eldið. Tölur frá Noregi þar sem framleitt voru rúmlega 1,2 milljónir tonna árið 2017 sýna að ríflega 15 þúsund laxar struku, sem þýðir að 0,001 strokulax fyrir hvert tonn sem framleitt er. Staðreyndin er einnig sú að séu tölur í Noregi skoðaðar aftur til ársins 2001 þá hefur talan einn strokulax fyrir hvert tonn framleitt aldrei verið raunveruleg (sjá mynd).

Hvaðan talan einn fyrir hvert tonn í eldi kemur veit ég ekki – og fátt var um svör?

En tölurnar um afkomu lax í náttúrunni? Tölur sem því miður eiga sér enga stoð í raunveruleikanum eins og niðurstöður áralangra rannsókna sýna. En niðurstöður rannsókna sýna einmitt að undir 2% eldisfisks lifir frá hrygningu (hrogn grafin í árbotni) þar til fiskur gengur til sjávar. Niðurstöður sýna ennfremur af þeim sem þó lifa af tímann í ánni og komast til sjávar þá er undir 0,5% sem lifir af tímann í hafinu og kemur til baka til hrygningar (https://onlinelibrary.wiley.com/doi/full/10.1111/eva.12777). Það er því alveg ljóst að útreikningar sem passa vel í excel eru ekki endilega eins vel til þess fallnir að útskýra hvað á sér stað í náttúrunni. Því miður er staðreyndin sú að fyrirfram gefnar niðurstöður, þó svo að þær séu reiknaðar í flóknu formúluformi eru ekki til þess fallnar að nota sem stjórntæki við leyfisveitingar fyrir fiskeldi – hvað þá til annars brúks.

 

 

Deila: