Með 1.400 tonn úr Rússasjó
„Þetta var mjög góður túr og ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að um sé að ræða met hjá HB Granda. Við vorum með alls rúmlega 1.500 tonna afla upp úr sjó í túrnum og þar af voru um 1.400 tonn í rússnesku landhelginni. Við kláruðum kvótann þar og eftir siglinguna heim til Íslands vorum við að veiðum djúpt úti af Vestfjörðum. Markmiðið var að veiða grálúðu en veiðin var að fjara út þegar við komum heim. Aflinn var því minni en ella.
Þetta segir Ævar Jóhannsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE í samtali á heimasíðu HB Granda. Skipið kom heim fyrir helgina eftir mjög velheppnaða veiðiferð í Barentshaf. Siglingin til og frá miðunum tók um 11 sólarhringa en þess utan var vinnslan í gangi allan sólarhringinn. Mikið reyndi á áhöfnina og segir Ævar að skipverjar hafi staðið sig með fádæmum vel.
Að sögn Ævars var aflinn í Barentshafi aðallega þorskur.
,,Við vorum þó með um 100 tonn af ýsu, einhverja tugi tonna af ufsa en allt annað var nánast í sýnishornaformi. Þegar veiðunum þessa síðustu daga í íslensku landhelginni en bætt við þá náðum við alls að veiða 20 mismunandi fisktegundir. Ég man ekki eftir að hafa verið með jafnmargar tegundir í túr. M.a. lönduðum við nokkrum kössum af fisknum gjölni en hann var hausaður og heilfrystur um borð. Þetta er afskaplega hvítur fiskur á holdið en frekar bragðlítill. Ég get vitnað um það eftir að hafa borðað gjölni,“ segir Ævar.
Örfirisey RE er aftur farin til veiða og er Símon Jónsson nú með skipið.
,,Framundan eru túrar á heimamiðum þar sem reynt verður að ljúka við kvóta ársins. Mér skilst að það eigi að leggja áherslu á ýsuveiðar til að byrja með og svo sjáum við hvernig þetta þróast,“ segir Ævar Jóhannsson.