Óttast áhrif útgöngu án samnings

Deila:

Forystumenn í norskum sjávarútvegi hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir áformum hins nýja forsætisráðherra Breta, Boris Johnsons, um að Bretar yfirgefi Evrópusambandið í haust án útgöngusamnings, hafi slíkur samningu þá ekki náðst. Telja þeir afleiðingarnar geta orðið slæmar, sérstaklega fyrir sjómenn og fiskeldið.

Norðmenn flytja árlega út meira en 200.000 tonn af sjávarafurðum að andvirði 87 milljarðar íslenskra króna til Bretlands. Tveir þriðju hlutar þess eru lax og er Bretland fjórði stærsti útflutningsmarkaður Norðmanna.

Reyndar er í gildi beinn samningur milli Norðmanna og Breta um viðskipti með sjávarafurðir og mun útgangan ekki hafa áhrif á hann. Það er hins vegar óbeinn útflutningur til Bretlands sem Norðmenn hafa áhyggjur af. Þar er um að ræða 60.000 tonn, mest lax. Hann fer til aðildarríkja ESB eins Póllands, Danmerkur og Hollands. Þar er laxinn unninn og síðan fluttur utan til Bretlands.

Óvissan snýst um það hvað gerist í verslun með fiskafurðir milli ESB og Bretlands, náist engir samningar um þau. Þá gæti þessi óbeini útflutningur til Bretlands verið í hættu. Norsk yfirvöld ráðleggja norskum fiskútflytjendum að vera í góðu sambandi við viðskiptavini sína á Bretlandseyjum og fylgjast náið með framvindu mála.

 

 

Deila: