175 milljónir í bætta stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi

Deila:

Aukið fjármagn til að bæta stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi og lagfæring á fjármögnun Hafrannsóknastofnunar eru á meðal helstu áherslumála nýs fjárlagafrumvarps, á málefnasviði Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, sem kynnt var á dögunum.

Traustari fjármögnun Hafrannsóknastofnunar

Í frumvarpinu er mælt fyrir um 750 milljón króna framlagi til rannsókna og fjárfestinga. Þar er annars vegar um að ræða 600 milljón króna framlag í byggingu nýs hafrannsóknaskips sem mun stórefla grunnrannsóknir. Alls hefur þá verið varið 900 milljónum króna til þessa verkefnis sem sérstök byggingarnefnd hefur umsjón með. Í síðustu viku skrifuðu Hafrannsóknastofnun og Ríkiskaup undir samning um útboðsvinnu fyrir skipið.

Einnig er um að ræða 150 milljón króna framlag til Hafrannsóknastofnunar vegna samdráttar í framlögum úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til stofnunarinnar. Umræða um stofnunina á undanförnu hefur varpað skýru ljósi á veikleika varðandi það hvernig hún hefur verið fjármögnuð undanfarin ár. Hafrannsóknarstofnun hefur verið mjög háð framlögum úr verkefnasjóði sjávarútvegsins og hafa tekjurnar lækkað mikið á undanförnum árum. Með fjárlagafrumvarpi næsta árs er verið að breyta þessu fyrirkomulagi og tryggja stofnuninni fastar tekjur þannig að Hafrannsóknastofnun verður ekki lengur háð sveiflukenndum tekjustofnum með tilheyrandi óvissu fyrir kjarnastarfsemina.

Á þessu ári fær stofnunin einnig aukin fjárframlög til húsnæðismála, en á næstu mánuðum mun stofnunin koma sér fyrir í nýju húsnæði í Hafnarfirði, þar sem öll starfsemin verður þá undir sama þaki.

175 milljónir í bætta stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi

Í frumvarpinu er að finna 175 milljón króna framlag til bættrar stjórnsýslu, eftirlits og heilbrigðiskrafa í fiskeldi. Þetta framlag verður meðal annars til þess að styrkja eftirlit og stjórnsýslu Matvælastofnunar með fiskeldi. Jafnframt verður það nýtt til að setja á fót rafræna gátt sem ætluð er til að birta opinberlega tilteknar upplýsingar um greinina en slíkar gáttir eru þekktar m.a. í Færeyjum og Noregi. Auk þess má nefna að inn í þessari tölu er gert ráð fyrir auknu fjárframlagi til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis en sjóðurinn hefur það meginmarkmið að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis.

Aðgerðaráætlun um m.a. bætta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu

Í júní síðastliðnum samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í því skyni að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þessi aðgerðaáætlun hefur verið í vinnslu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá því í byrjun síðasta árs og þar er unnið af krafti að framgangi hennar. Helstu áherslur fjárlagafrumvarps næsta árs þegar að kemur að landbúnaðarmálum snúast um að treysta framgang þessara aðgerða sem allar hafa verið fjármagnaðar.

Stjórnsýsla landbúnaðarmála efld

Um næstu áramót taka gildi lög sem samþykkt voru í vor og fela í sér breytingu á stjórnsýslu landbúnaðarmála. Verkefni Búnaðarstofu, sem nú heyrir undir Matvælastofnun, færast til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins með breytingunni.  Þetta mun efla stjórnsýslu og stefnumótun á sviði landbúnaðar- og matvælamála með fjölgun starfsmanna sem þeim málum sinna í ráðuneytinu. Með þessu er ábyrgð á framkvæmd verkefna í tengslum við framkvæmd búvörusamninga færð á einn stað og leitast við að þróa stjórnsýsluna með skilvirkum hætti. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs eru gerðar ráðstafanir í samræmi við þessa breytingu.

 

Deila: