„Ríkisútvarpið í herferð gegn Samherja“

Deila:

„Síðustu daga hefur það komið enn skýrar í ljós að Ríkisútvarpið er í herferð gegn Samherja í stað þess að einbeita sér að því að segja fréttir.“ Svo segir í tilkynningu frá Samerja og er þar vísað til fréttaflutnings RÚV undanfarna daga. Í tilkynningunni segir ennfremur:

„Takmarkaður vilji fréttamanna Ríkisútvarpsins til að segja á hlutlausan og yfirvegaðan hátt frá staðreyndum máls kom berlega í ljós aðdraganda Kveiksþáttarins 12. nóvember enda hafnaði Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri, þá ítrekað óskum Samherja um að afhenda Ríkisútvarpinu gögn og upplýsingar um starfsemina í Namibíu. Það er líklega fáheyrt í vestrænum fjölmiðlaheimi að fjölmiðill hafni upplýsingum, frá þeim sem er til umfjöllunar, í aðdraganda þáttar þar sem setja á fram meiðandi staðhæfingar um viðkomandi.

Helgi Seljan mætti svo í morgunútvarpið á Rás 2 hinn 26. nóvember sl. og fullyrti að yfir „þúsund störf“ hefðu tapast í Walvis Bay í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja. Engar skýringar fylgdu, enda var um gróf ósannindi að ræða. Með breytingum sem urðu á úthlutum aflaheimilda í Namibíu fluttust störf milli fyrirtækja og skipa. Eftir að Samherji hafði leiðrétt rangfærsluna ítrekaði Helgi hana á samfélagsmiðlum og vísaði til fréttar götublaðs í Namibíu um störf sem töpuðust hjá suður-afrískri alþjóðasamsteypu sem er eitt af 2.000 stærstu fyrirtækjum heims. Störfin fluttust frá þessari samsteypu til namibískra aðila en Helgi Seljan talar um glötuð störf.

Ríkisútvarpið náði svo botninum í gærkvöldi með makalausri yfirlýsingu þar sem fréttastjórinn reynir að klóra í bakkann eftir að Samherji leiðrétti umfjöllun Ríkisútvarpsins og Stundarinnar um félagið Cape Cod FS. Þessi yfirlýsing er afhjúpandi því hún sýnir svart á hvítu að Ríkisútvarpið er í herferð gegn Samherja en ekki í því hlutverki að segja fréttir. Í Kveik var fullyrt að bankinn DNB hafi talið að Cape Cod FS væri „í eigu Samherja.“ Þá var umfjöllunin öll sett fram með þeim hætti að Samherji hafi stýrt félaginu. Eins og rannsókn Wikborg Rein hefur staðfest og Samherji fjallaði um í yfirlýsingu sinni í gær, er þetta alrangt.

Kveikur birti með umfjöllun sinni fylgiskjal frá DNB bankanum þar sem er fullyrt að Cape Cod FS sé dótturfélag JPC Shipmanagement. Ekki er minnst einu orði á Samherja í umræddu skjali. Upplýsingar í skjalinu ganga þannig alvarlega í berhögg við umfjöllun Kveiks. Annað hvort lásu fréttamenn Ríkisútvarpsins ekki þau skjöl sem þeir höfðu undir höndum eða matreiddu umfjöllun sína vísvitandi með þeim hætti að hún myndi valda Samherja sem mestum skaða.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að fréttamenn Ríkisútvarpsins eru löngu komnir út fyrir hlutverk sitt og reka nú áróður gegn Samherja. Alla umfjöllun þeirra um félagið ber að skoðast í því ljósi.“

 

Deila: