Enginn eldislax veiðst í íslenskum ám í sumar

Deila:

Enginn eldislax hefur veiðst í ám á Íslandi á þessu sumri, skv. þeim gögnum sem nú liggja fyrir hjá Hafrannsóknastofnun og byggja á upplýsingum úr veiðibókum. Frá þessu var greint í Fréttablaðinu föstudaginn 8. september sl.

„Þessar tölur gefa skýrt til kynna að íslenskt sjókvíaeldi sé ekki vandamál í veiðiánum.
Samkvæmt sömu gögnum hafa veiðst 8 regnbogasilungar, en ekki kemur fram í fréttinni hvaðan þeir koma. Þá hafa veiðst 59 hnúðlaxar í ánum í sumar,“ segir í færslu á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.
Hnúðlax er ekki eldisfiskur
Þar er einnig birt eftirfarandi umfjöllun Ólafs Sigurgeirssonar lektors við fiskeldis og fiskalíffræðideild Hólaskóla á facebooksíðu hans og segir þar:
„Hér er ljómandi gott dæmi um hvert sumir fjölmiðlar eru komnir. Annað hvort er blaðabarnið sem þetta skrifar fullkominn bjálfi, sem hefur engan metnað eða áhuga á að kynna sér efni máls, ellegar reynir að slá bara einhverju nógu krassandi upp, til að fá athygli. Hnúðlax, sem talsvert hefur verið í brennidepli (og veiðist nú í Noregi, Skotlandi, Írlandi, Finnlandi og Frakklandi svo eitthvað sé nefnt), er ekki eldisfiskur heldur flækist hingað úr Hvítahafinu. Í anda Tómasar postula hefði ég síðan gjarnan vilja sjá og snerta regnbogasilung sem veiddist, að því er virðist skv. myndinni, í ofanverðri Vatnsdalsá. Og hver ætli hafi hjálpað hnúðlaxi upp í Þórisvatn?“
Flökkusögurnar ganga staflaust um samfélagsmiðlana
Öðru hverju dúkka líka upp flökkusögur um eldislaxa í laxveiðiám. Þannig kom upp meint slíkt tilvik í Laxá í Aðaldal. Frásagnir af því gekk staflaust um samfélagsmiðlana þar sem spekingar af öllu tagi slógu því föstu að eldislax hefði farið upp í ána og veiðst þar. Birt var mynd af veiðiverði með hinn grunaða fisk og fullyrt að um lax væri að ræða.
„Eldislaxinn“ reyndist vera silungur !!
Fjölmiðlar bitu á agnið ( sem væntanlega hefur verið fluga) og „flugufréttinni“ var slegið upp. Enginn fjölmiðill hafði fyrir því að kanna sannleiksgildið og át þar hver upp eftir öðrum það sem síðar kom í ljós að var tóm della. Menn sem guma af reynslu sinni og þekkingu af laxveiðum létu sig hafa það að kveða upp harða dóma um hinn meinta lax. Myndinni af hinum meinta sökudólg var hins vegar komið á framfæri við Hafrannsóknastofnun. Þar á bæ voru menn ekki í nokkrum vafa.
„Eldislaxinn“ reyndist sem sagt þegar að var gáð vera silungur; regnbogasilungur! –

Að þekkja ekki muninn á laxi og silungi
Enginn hinna meintu spekinga höfðu þar af leiðandi ekki þekkt muninn á laxi og silungi. Þá varð gömlum togarasjómanni að orði: „Ekki veit ég hvað hefði verið gert við mig þegar ég var á sjó, ef ég hefði ekki þekkt muninn á ýsu og þorski“.
Enginn baðst afsökunar á frumhlaupinu
Athyglisvert er að enginn þeirra sem um málið fjallaði baðst afsökunar á frumhlaupi sínu. Veiðifélagið árinnar hafði ekki fyrir því að koma hinu sanna á framfæri. Fullyrðingarnar sem höfðu reynst óhrekjandi lygi fengu að standa.
Flökkusögur geta ekki orðið grundvöllur skynsamlegrar umræðu
Þetta minnir á mikilvægi þess að tilkynningar um meinta eldisfiska í ám séu rannsakaðar, kannað sannleiksgildið og fundið út hvaðan þeir hafi komið. Flökkusögur geta aldrei orðið grundvöllur skynsamlegrar umræðu um þessi mál, eins og dæmið frá því í sumar af því þegar menn þekktu ekki muninn á laxi og silungi en létu sig ekki muna um að fullyrða um hluti sem þeir höfðu enga hugmynd um.“

Deila: