Loðnuvertíð lokið

Deila:

Loðnuvertíð er lokið að þessu sinni. Alls lönduðu íslensku skipin 515.148 tonnum. Leyfilegur heildarafli var 686.440 svo ekki náðist að veiða 171.291 tonn. Engu að síður reiknar vefsíðan loðnufréttir með að útflutningsverðmæti loðnuafurða geti orðið 48 milljarðar króna.

Aflinn nú er engu að síður sá mesti í áratug. Vertíðina 2011/2012 varð aflinn 585.000 tonn. Á síðustu vertíð veiddu íslensku skipin aðeins 70.726 tonn og ekkert tvö næstu ár á undan. Leyfilegur heildarafli hefur aldrei verið meiri en nú.

22 skip lönduðu nú loðnu í 11 höfnum. Fjórar hafnir tóku á móti meiru en 60.000 tonnum af íslensku skipunum. Það eru Vestmannaeyjar með 113.629 tonn, Neskaupstaður með 80.181 tonn, Vopnafjörður með 62.172 og Seyðisfjörður með 60.254 tonn.

Fimm skip lönduðu 30.000 tonnum eða meira. Aflahæstur er Börkur NK með 37.330 tonn. Næstir koma Vilhelm Þorsteinsson EA með 32.074 tonn, Beitir NK með 31.598 tonn, Heimaey VE 31.123 tonn og Venus NS með 31.087 tonn.

Deila: