Eigið fé sem vex og vex!
„Undanfarin misseri hefur borið á umræðu um eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja og hve mikið það hafi vaxið á ákveðnu tímabili. Markmið umfjöllunarinnar virðist oft og tíðum helst vera það að sýna fram á að forsendur séu til hækkunar á veiðigjaldi. Upphafsárið í umfjöllun af þessu tagi er yfirleitt 2008 eða 2009. Það er forvitnileg nálgun, enda tæplega hægt að tala um eðlilegt árferði á þessum árum í kringum efnahagshrunið.“
Svo segir í pistli sem birtur er á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur: „Árið 2008 var eigið fé atvinnugreinarinnar, á föstu verðlagi ársins 2018, neikvætt um tæpa 87 milljarða króna. Sé miðað við tímabilið frá árinu 2008 til 2018 þá hefur eigið fé greinarinnar vaxið um 428 milljarða króna á föstu verðlagi. Sé upphafið miðað við árið 2009, þá er aukningin um 92-föld! Þetta er talnaleikfimi. Ef við miðum við upphafsárið 2002, þá hefur eigið fé sjávarútvegsins þrefaldast – úr 128 milljörðum króna árið 2002 í 341 milljarð króna árið 2018.
Hér blasir því við önnur mynd og rétt er að spyrja, er þetta eðlileg aukning? Hér skiptir samhengið máli. Látum liggja á milli hluta að óheppilegt sé að nota eigið fé sem mælistiku fyrir hag atvinnugreinar, og spyrjum, hvað var að gerast á öðrum sviðum viðskiptalífsins á sama tíma? Ef viðskiptahagkerfið er skoðað í heild sinni, án sjávarútvegs,[1] sést að hlutfallsaukningin var meiri þar en í sjávarútvegi, eða tæplega sexföld – úr 502 milljörðum króna árið 2002 í um 2.950 milljarða króna árið 2018. Sumir kunna að benda á að fyrirtækjum í viðskiptahagkerfinu hafi fjölgað á tímabilinu, en fækkað í sjávarútvegi og því sé eðlilegt að eigið fé hafi aukist meira í viðskiptahagkerfinu. Slík ábending er sannanlega réttmæt. Ef hins vegar er leiðrétt fyrir breytingum á fjölda fyrirtækja, þá þrefaldaðist eigið fé á hvert fyrirtæki í sjávarútvegi á tímabilinu 2002-2018, en það hins vegar fjórfaldaðist í viðskiptahagkerfinu á sama tíma. Meiri aukning hefur því verið á eigin fé í viðskiptahagkerfinu á nefndu tímabili heldur en í sjávarútvegi.
Þetta er áhugaverð staðreynd, sér í lagi þegar litið er til þess að árin 2011 til 2015 voru mjög góð ár í sjávarútvegi. Þrátt fyrir hremmingar árið 2008, er ljóst að rekstrargrundvöllur sjávarútvegsfyrirtækja brast ekki þótt efnahagsreikningar væru laskaðir. Og rétt er að hafa í huga að hagræðingaraðgerðir, niðurgreiðsla skulda, lægra gengi krónunnar og ágætt verð fyrir afurðir á árunum sem á eftir fylgdu, skýra að miklu leyti þá aukningu á eigin fé sem orðið hefur í sjávarútvegi á undanförnum árum.
Sem fyrr segir er vöxtur eigin fjár í sjávarútvegi frá völdum tímapunkti gjarnan notaður til þess að rökstyðja hærra veiðigjald. Röksemdarfærslan er þá sú að hagur atvinnugreinarinnar hafi verið óeðlilega góður. Staða og þróun á eigin fé sjávarútvegsfyrirtækja er, þegar betur er að gáð, á svipuðu róli og hjá öðrum fyrirtækjum og styður á engan hátt kröfuna um hærra veiðigjald.“
[1] Um er að ræða „Viðskiptahagkerfið að undanskilinni lyfjaframleiðslu, sorphirðu, fjármála- og vátryggingarstarfssemi“ og að frádregnum sjávarútvegi. Heimild: Hagstofa Íslands.