Allar líkur á skerðingu loðnukvótans

Deila:

Nýjustu mælingar á loðnustofninum benda til þess að þurfi að skerða kvótann á yfirstandandi vertíð um allt að hundrað þúsund tonn. Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali við ruv.is allar líkur á því einhverjar skerðingar verði á loðnukvótanum, en hversu miklar verði ekki ljóst fyrr en síðar í vikunni.

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson kom til hafnar á sjöundatímanum í kvöld, en tilgangur þeirrar ferðar var að að skoða það svæði sem erfiðlega gekk að skoða í síðasta leiðangri skipsins, vegna íss og slæms veðurs.

„Fyrir þennan leiðangur var búið að segja að að óbreyttu yrði kvótinn um 10% minni en gefið var út í haust og við vorum að vonasti til þess að við gætum í raun fundið það mikið að það þyrfti ekki að koma til skerðinga“ segir Þorsteinn.

Einhverjar skerðingar líklegar

„En fyrstu niðurstöðurnar eru hins vegar á þann veg að það er minna en við vonuðumst eftir að sjá, en þó eitthvað“ segir Þorsteinn. „Svo það þarf núna að fara í þá vinnu að sameina þessar niðurstöður og gögnin og reikna þetta allt saman þannig að að hægt sé að komast að endanlegri niðurstöðu um kvóta vertíðarinnar.“

Sjái þið fram á minni skerðingu en virtist stefna í eftir síðustu mælingu? Eða telur þú líklegt þið gefið út eitthvað svipað?

„Við vonuðumst til þess að niðurstöður vetrarins myndu ganga upp í mælingar frá haustinu svo þyrfti ekki að koma til neinna skerðinga. En fyrir þennan leiðangur var gert ráð fyrir að ef ekkert finndist yrðu skerðingarnar um eða yfir 10%. En það verður eitthvað minna en það miðað við að þeir hafi eitthvað fundið“ segir Þorsteinn.

Eftir síðustu mælingu var gert ráð fyrir um 800 þúsund tonna heildarkvóta, en Þorsteinn gerir ráð fyrir að hann verði einhverju meiri. Ómögulegt sé þó að segja hversu mikið enn sem komið er.
Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

Deila: