Segir enga góða lausn fyrir orkuskipti í sjávarútvegi

Deila:

Skipatæknifræðingur sem unnið hefur að hönnun á nýju og umhverfisvænu hafrannsóknaskipi segir orkuskipti í sjávarútvegi mikla áskorun. Langt sé í að raunveruleg lausn finnist fyrir skip sem sigla langt og eru lengi á sjó. Frá þessu er greint á ruv.is

Hönnun á nýjum Bjarna Sæmundssyni fyrir Hafrannsóknastofnun hefur staðið í tvö ár. Hann á verða umhverfisvænn og þar sem orkuskipti fyrir slík skip eru skammt á veg komin hefur þurft að leita allra leiða til að gera skipið eins umhverfisvænt og hægt er. Sævar Birgisson, skipatæknifræðingur hjá Skipasýn, hefur unnið að hönnun skipsins.

Sævar Birgisson

„Skrokkurinn á skipinu er alveg sérhannaður með tilliti til að hafa eins litla mótstöðu og hugsast getur,“ segir Sævar.

Því til viðbótar eru í skipinu rafhlöður sem hjálpa til við að knýja dísilvélar skipsins. Sævar segir að það sé ekki einfalt að skipta díesilolíu út fyrir annan orkugjafa. „Þetta er mjög mikil áskorun, miklu meiri áskorun en fólk vill vera láta. Við erum búin að leita í tvö ár logandi ljósi og smíðanefnd þessa skips hefur hamrað á okkur sem höfum verið að vinna þetta verk að fylgjast vel með og það er engin lausn komin í þessum málum, það er langt frá því, því miður sko,“ segir Sævar.

Umhverfisvænast væri að knýja skipið með vetni en það þurfi að geyma við alkul eða undir miklum þrýstingi sem sé erfitt. Helst hafi verið horft til metanóls. „Og vélar skipsins, dísilvélarnar eru keyptar með það í huga að hægt sé að brenna á þeim metanóli ef það verður ofan á sem orkugjafi.“

Metanól tekur helmingi meira pláss en dísilolía. Það megi þó leysa því tankplássið í skipinu sé mikið. Vandinn sé hins vegar sá að það þurfi díselolíu með. „Það verður alltaf að brenna á svona venjulegum hefðbundnum sprengjuvélum verður að brenna með dísilolíu líka, 10 til 20 prósent olíu,“ segir Sævar.

Deila: