Leita allra leiða til að finna stórufsann

Deila:

Öll skip Brims, að frystitogaranum Örfirisey RE undanskildum, voru í höfn í Reykjavík fyrr í dag vegna veðurs. Eitt þeirra er ísfisktogarinn Viðey RE sem kom til hafnar í gær. Skipstjórinn, Kristján E. Gíslason (Kiddó), segir að aflabrögð hafi verið merkilega góð þá daga sem hægt hafi verið að stunda veiði vegna veðurs. Nú sé vertíð, stórufsinn farinn að ganga og í næsta túr verði kapp lagt á að finna göngurnar. Rætt er við hann á heimasíðu Brims.

,,Þetta er búinn að vera bræluvetur. Þá er ölduhæð meiri en menn þekkja eins og nýlegt Íslandsmet við Garðskaga sannar. Þar fór ölduhæðin í 20 metra fyrir skömmu,” segir Kiddó en að hans sögn er allur fókus nú á því að nýta veiðidagana vel og fá sem mest af stórufsa, fjögurra til átta kílóa fiski.

,,Stórufsaveiðin hefur verið undir meðallagi fram að þessu en hins vegar höfum við fengið meira af milliufsa en við áttum von á. Vonandi breytist það í næsta straumi,” segir Kiddó en hann upplýsir að auk ufsans hafi verið reytingsþorskveiði á vertíðarsvæðinu sl. þrjár vikur.

,,Þorskurinn byrjaði ekki að skila sér af krafti fyrr en fyrir u.þ.b. viku en þá gerði mokveiði í Jökuldýpinu. Fræg hrygningarmið eins og Selvogsbankinn hafa hins vegar verið mjög döpur og þar sést sömuleiðis varla ufsi. Vonandi á þetta ástand eftir að skána.”

Að sögn Kiddó þurfa menn ekki að hafa áhyggjur af vexti og viðgangi gullkarfastofnsins því öll hrygningarsvæði gullkarfans séu stappfull af þessum fiski.

,,Ég fór út á Heimsmeistarahrygg fyrir nokkrum dögum. Við drógum trollið í 15 mínútur og fengum 14 tonn af gullkarfa. Ég held að Eiríkur á Akurey AK hafi gert enn betur,” segir Kiddó en hann segir stefnt að því að Viðey láti úr höfn eftir hádegi á morgun.

,,Auðvitað er spáð brælu út vikuna. Hvað sem því líður er verkefnið að finna stórufsann á Eldeyjarbankanum og Tánni og veiða sem mest af honum. Það er verðugt verkefni og ég get varla beðið eftir því að komast af stað,” segir Kristján E. Gíslason (Kiddó).

Deila: