Guðný Bjarkadóttir skrifstofustjóri SVN lætur af störfum

Deila:

Síðasti starfsdagur Guðnýjar Bjarkadóttur á skrifstofu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað var í síðustu viku. Guðný hóf fyrst störf á skrifstofu fyrirtækisins árið 1972 en þá var hún 17 ára gömul. Guðný var að vinna í niðurlagningarverksmiðju Síldarvinnslunnar þegar Þórður M. Þórðarson skrifstofustjóri bað hana um að koma til starfa á skrifstofunni. Verkefni Guðnýjar í fyrstu var að leggja saman strimla sem geymdu upplýsingar um vigtaðan afla báta sem lönduðu í loðnuverksmiðjuna. „Ég fékk strimla á hverjum degi og þeir voru oft margra metra langir. Tölunum á strimlunum var slegið inn í reiknivél og vigtaðir skammtar úr hverjum báti lagðir saman. Þetta var tilbreytingarlaust starf í upphafi en það átti eftir að breytast,“ segir Guðný í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Guðný hefur starfað á skrifstofunni samfellt frá þessum tíma ef undanskilin eru árin 1977-1980 þegar hún starfaði hjá Landsbanka Íslands í Reykjavík og 1981-1983 þegar hún tók að sér reksturinn á söluskála Olís í Neskaupstað. Það er semsagt hálf öld frá því að hún hóf að leggja saman loðnustrimlana og öll starfsemi skrifstofunnar hefur tekið miklum breytingum síðan þá. Guðný hóf að gegna starfi skrifstofustjóra í ársbyrjun 1999 og því starfi hefur hún því sinnt í rúm 22 ár. Hún var beðin um að reyna að lýsa þeim breytingum sem átt hafa sér stað á skrifstofunni frá því að hún settist þar í stól.

Guðný Bjarkadóttir á skrifstofu sinni. Ljósm. Smári Geirsson

„Fljótlega fór ég að sinna öðrum verkefnum. Eitt fyrsta verkefnið fyrir utan loðnustrimlana var að reikna út bónus hjá starfsfólki frystihússins og auðvitað var allt handreiknað. Þegar bónusinn hafði verið reiknaður þurfti daglega að handskrifa niðurstöðuna á seðil fyrir hvern einstakan starfsmann. Seðillinn fór síðan inn í frystihús til upplýsingar fyrir fólkið. Í lok vikunnar var bónusinn síðan tekinn saman og greiddur út með laununum sem einnig voru handreiknuð. Þetta var gífurleg vinna og það var ávallt tímapressa. Lífið hjá okkur á skrifstofunni gekk út á að allt þurfti að vera klárt á fimmtudegi svo unnt væri að greiða fólkinu launin á föstudegi.

Það voru oft átök í tengslum við útreikning á bónusnum og trúnaðarmaður starfsfólksins kom gjarnan út á skrifstofu til að gera athugasemdir og þá fékk maður heldur betur að heyra það. Fyrir utan þetta þurfti að handskrifa í þríriti nótur vegna löndunar báta og á níunda áratugnum voru gerðar út yfir eitt hundrað trillur frá Neskaupstað þannig að þetta var drjúgt verkefni. Einu sinni í mánuði þurfti síðan að vélrita skilagreinar vegna orlofs, lífeyrissjóðs og stéttarfélagsgjalds hvers starfsmanns. Það var einnig gert í þríriti og notaður kalkipappír. Að auki þurfti að handfæra allt varðandi útflutning í sérstaka bók,“ segir Guðný.

Lengi voru öll laun greidd í peningum á föstudögum og það var talið í launaumslögin á kaffistofu skrifstofunnar sem þá var í húsinu Steininum. Guðnýju er þetta eftirminnilegt. „Þegar kom að útborgunardegi voru peningarnir sóttir inn í Landsbanka. Það voru ýmsir sem sóttu peningana þangað og ég gerði það stundum. Í bankanum voru peningarnir, fleiri milljónir, settir í plastpoka og síðan labbaði maður með hann út á skrifstofu. Stundum fór ég með pokann í búðina og keypti eitthvað með kaffinu handa okkur. Það hvarflaði ekki að nokkrum manni að þetta væri eitthvað óeðlilegt.“

Guðný segir að fyrsta tölvan hafi sennilega komið á skrifstofu Síldarvinnslunnar árið 1986. „Hún var risastór og tók heilt herbergi. Í fyrstu voru laun keyrð í gegnum tölvuna og eins var greiðslukerfi í henni. Tölvan sinnti bara broti af þeim verkefnum sem skrifstofan hafði á sinni könnu. Síðan hafa átt sér stað gríðarlegar breytingar og tölvurnar breyst og þróast. Nú má segja að öll verkefni séu tölvuunnin. Mesta breytingin átti sér stað árið 1999 þegar Navision – kerfið kom til sögunnar. Með því má segja að allir þættir hafi verið tölvuvæddir.“

Umsvif skrifstofu Síldarvinnslunnar hafa vaxið mikið á síðustu tveimur áratugum eða svo upplýsir Guðný. „Fyrirtækið hefur stækkað og mörg fyrirtæki hafa sameinast því og eins eru dótturfyrirtækin orðin nokkur. Verkefni skrifstofunnar hafa aukist og starfsfólki fjölgað nokkuð. Þá var Síldarvinnslan skráð á markað á síðasta ári og það hafði einnig aukin verkefni í för með sér. Ég hef oft velt fyrir mér hve starfsmennirnir á skrifstofunni þyrftu að vera margir ef sömu vinnubrögð og ég kynntist í upphafi væru enn viðhöfð. Þeirri spurningu er erfitt að svara en víst er að skrifstofan væri þá mikið bákn og starfsmenn fjölmargir.“

Guðný segist hafa starfað með mörgu góðu fólki á skrifstofunni og alls hefur hún starfað með sex framkvæmdastjórum. Hún segist ekki kvíða því að hætta að vinna og nú sé kominn tími til að leika sér og hafa það huggulegt.

Síldarvinnslan vill þakka Guðnýju Bjarkaóttur innilega fyrir vel unnin störf.

Deila: