Aukin umsvif – fleiri störf…
„Samhliða auknum umsvifum í fiskeldi hér á landi á undanförnum árum hefur starfsmönnum fjölgað mikið. Að jafnaði störfuðu 620 manns beint við fiskeldi á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en 540 á sama tímabili í fyrra. Það er fjölgun um 15%. Það þarf vart að tilgreina að aldrei fleiri hafa starfað við fiskeldi hér á landi og útflutningur á eldisafurðum hefur stóraukist.“
Þetta kemur fram í samantekt frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:
„Að sama skapi hafa atvinnutekjur í fiskeldi aldrei verið hærri en um þessar mundir. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins námu staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi rúmum 2 milljörðum króna. Það er 29% aukning að nafnvirði á milli ára en rúmlega 21% aukning að raunvirði. Þetta má sjá í nýlegum gögnum Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur. Hagstofan hefur jafnframt gefið út ítarlegri sundurliðun á þeim gögnum þannig að nú er hægt að greina þau niður á einstaka landshluta og sveitarfélög eftir atvinnugreinum.
…sér í lagi á Vestfjörðum
Fiskeldi er ein af fáum atvinnugreinum sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Yfir 80% af starfsfólki í fiskeldi býr á landsbyggðinni og yfir 80% af atvinnutekjum í greininni koma í hlut einstaklinga sem þar búa. Áhrifin eru áþreifanlegust á Vestfjörðum enda má rekja um þriðjungs launafólks og atvinnutekna í fiskeldi til íbúa þar. Vægi fiskeldis á vestfirskum vinnumarkaði er orðið mjög greinilegt. Um 5,3% launafólks á Vestfjörðum starfaði í fiskeldi á fyrstu 4 mánuðum ársins samanborið við 4,9% á sama tímabili í fyrra. Vægi í atvinnutekjum á svæðinu var 6,9% á fyrstu 4 mánuðum ársins samanborið við 6% á sama tímabili í fyrra. Af þessu er jafnframt ljóst að atvinnutekjur í fiskeldi á Vestfjörðum eru að jafnaði hærri en atvinnutekjur í öðrum atvinnugreinum á svæðinu. Þó ber að halda til haga að þetta er óháð vinnutíma og öðrum þáttum sem hafa áhrif á laun.
Sunnanverðir Vestfirðir skera sig úr
Hagstofan birti einnig sundurliðun niður á einstaka sveitarfélög eins og áður segir. Af þeim gögnum sést að sunnanverðir Vestfirðir skera sig verulega úr þegar kemur að fiskeldi. Myndin hér að neðan sýnir 12 sveitarfélög þar sem vægi fiskeldis, miðað við atvinnutekjur, er hvað mest. Einnig að um þriðjung atvinnutekna íbúa í Tálknafjarðarhreppi má rekja til fiskeldis og um 23% á Vesturbyggð. Þessi tvö sveitarfélög skera sig verulega úr öðrum sveitarfélögum. Ljóst er að efnahagslegt mikilvægi fiskeldis er mikið á þessum svæðum og afleidd og óbein áhrif greinarinnar veruleg. Að endingu má nefna að tölur um fiskeldi og vinnumarkað hafa verið uppfærðar á mælaborði Radarsins. Auk þess hafa tölur er snúa að fjárfestingu í fiskeldi verið uppfærðar, en hún hefur verið í sögulegum hæðum á undanförnum árum.“