Mikil veiði og hátt verð á strandveiðunum

Deila:

Strandveiðar hafa gengið mjög vel í sumar. Heildarafli er kominn í 10.902 tonn, sem er 3.000 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Þar af er þorskur 9.521 tonn, sem er um 2.240 tonnum meira en í fyrra. Meðalverð á þorski úr strandveiðum á mörkuðum í sumar er rétt rumar 400 krónur, sem hækkun um fjórðung frá því í fyrra. Með auknum afla og hærra fiskverði er áætlað aflaverðmæti nú 4,14 milljarðar króna. Á sama tíma í fyrra var aflaverðmætið 2,42 milljarðar. Aflaverðmæti hefur því aukist um 72% milli ára.

Nú eru 42 dagar liðnir á strandveiðunum og átta dagar eftir, Viðmiðunarafli í þorski er 11.074 tonn. Þorskaflinn er eins og áður sagði 9.521 tonn og því eru óveidd 1.553 tonn. Þegar deilt er í heildarafla með fjölda veiðidaga, kemur út að meðalafli af þorski hefur verið 227 tonn á dag. Miðað við að meðaltalið haldist óbreytt næstu sex veiðidaga, ætti þorskaflinn að verða 1.362 tonn þann tíma. Það er þá um 200 tonnum innan leyfilegs hámarks.

706 bátar hafa stundað strandveiðar á þessu sumri. Það er 50 fleiri en á síðasta ári. Meðalafli á bát er 15,4 tonn, en var á sama tíma í fyrra 12 tonn. 331 bátur hefur stundað veiðarnar á svæði A í sumar. Afli þeirra er orðinn 6.071 tonn. Á sama tíma í fyrra var aflinn 3.963 tonn. Á svæði B hafa 147 bátar landað samtals 1.798 tonnum, sem er 232 tonnum meira en í fyrra. 135 bátar hafa landað 1.206 tonnum á svæði C. Það er um 100 tonnum meira en í fyrra. 113 bátar hafa landað afla á svæði D, samtals 1,827 tonnum. Á sama tíma í fyrra var aflinn á sama tíma 1.238 tonn. Munurinn er 589 tonn.
Á myndinni eru bátar í höfn á Arnarstapa. Ljósmynd Hjörtur Gíslason

 

Deila: