Ekki meiri annir í netagerð í Neskaupstað í fjölda ára – hjálp úr ýmsum áttum

Deila:

Í Neskaupstað eru gríðarlegar annir í netagerð Hampiðjunnar og Jón Einar Marteinsson rekstrarstjóri segir að langt sé síðan svo mikið álag hafi verið á starfsmönnum. „Það er þessi risaloðnuvertíð sem skapar aukin verkefni. Það átti í reyndinni engin von á svona miklum loðnukvóta og strax og kvótinn var útgefinn skapaðist mikil pressa. Síðan hófust veiðarnar fyrr en ráð hafði verið fyrir gert og auðvitað þurfti að þjóna skipunum sem voru að veiðum. Síðan eru skipin nú byrjuð að skipta út flotvörpunni og taka grunnnót í staðinn og þá þurfa grunnnæturnar að vera klárar. Nú er unnið af miklu kappi í þeim.

Eyjamennirnir frá Bergi-Hugin sem komu til starfa í Neskaupstað. Talið frá vinstri: Leó Snær Sveinsson, Guðni Hjörleifsson, Valgeir Ingvi Árnason og Ellert Scheving.

Við hefðum þurft að hafa mun fleiri starfsmenn hér en við höfum fengið frábæra aðstoð og þar á Síldarvinnslan drjúgan hlut að máli. Við erum með fjóra menn í störfum frá grænlenska skipinu Polar Ammassak og síðan erum við einnig með fjóra Vestmannaeyinga frá Bergi-Hugin. Svo eru menn að koma frá Hampiðjunni í Reykjavík í dag og þeir verða með okkur fram að helgi. Þessi viðbótarmannskapur gerir það að verkum að við ráðum sæmilega við verkefnin. Hér er unnið fram á kvöld alla daga. Það er afar ánægjulegt að sjá hvernig allir vinna saman á álagstímum sem þessum og hjálpast að við að leysa verkefni sem þola enga bið. Þó mikið álag sé á mönnum þá er líka gaman á vinnustaðnum. Það ríkir hér jákvæð stemmning og menn ganga glaðir til verka,“ segir Jón Einar í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunni.

Fjórir skipverjar af Polar Ammassak komu til starfa á netverkstæðinu. Þrír þeirra eru grænlenskir en sá fjórði er Guðbjartur Logi Gunnþórsson stýrimaður. Ljósmyndir Smári Geirsson

Einn þeirra Vestmannaeyinga sem kom til starfa í Neskaupstað er Guðni Hjörleifsson netagerðarmeistari en Guðni hefur starfað hjá útgerðarfélaginu Bergi-Hugin í Eyjum í tæp 30 ár. Heimasíðan ræddi við Guðna og spurði hvort það væri ekkert mál að rífa sig upp með litlum fyrirvara og hefja störf í öðrum landshluta.

„Nei, blessaður vertu. Það var hringt í okkur um klukkan þrjú á föstudag og við vorum allir fjórir mættir í Herjólf klukkan sex. Herjólfur sigldi til Landeyjarhafnar og þaðan keyrðum við austur. Við vorum mættir í vinnu strax á laugardagsmorgun. Með mér austur komu þrír úr áhöfn Vestmannaeyjar en Vestmannaey er einmitt í viðgerð núna vegna eldsvoðans sem kom upp í skipinu í október. Fyrir mig er mjög ánægjulegt að koma hingað til starfa enda er ég Austfirðingur, móðir mín frá Neskaupstað og faðir minn frá Seyðisfirði. Ég hef að vísu ekki komið nálægt nótum í ein 40 ár en þetta er vinna sem rifjast ótrúlega fljótt upp. Mér finnst í einu orði sagt æðislegt að koma í þessa nýju netagerð hér í Neskaupstað. Öll aðstaða hér er stórglæsileg og sú flottasta sem ég hef séð. Þá er líka svo gott að geta orðið að liði þegar mikið liggur við. Ég veit ekkert hvað við verðum lengi. Við verðum bara eins lengi og þarf,“ segir Guðni.

Deila: