Olíudæling úr Fjordvik gengur hægt
Fundur var haldinn í Reykjanesbæ í gærkvöldi vegna flutningaskipsins Fjordvik sem strandaði í Helguvík í aðfaranótt laugardags. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir í samtali á ruv.is. í gær að þar hafi komið fram að dæling eldsneytis úr skipinu gangi hægar en vonast hafði verið til. Því hafi verið ákveðið að senda mannskapinn í hvíld og í nótt verður reynt að útbúa stærri og öflugri tæki til dælingar.
Þá er gert ráð fyrir því að kafarar fari að skipinu á morgun, svo framarlega sem veður leyfir. Þeir ætla að meta stöðuna og gera úttekt á botni skipsins, sem hefur ekki verið hægt að gera hingað til vegna veðurs.
Fyrr í dag var greint frá því að ekki stendur til að færa flutningaskipið Fjordvik í dag en skipið strandaði í Helguvík í fyrrinótt. Það situr fast í skutnum að aftan og gat er á skrokki skipsins. Eitt af því sem björgunaraðilar hafa áhyggjur af er að skipið sökkvi ef það er dregið burt eins og staðan er núna. Hafa þarf hraðar hendur þar sem veðurspáin gerir ráð fyrir vonskuveðri á þriðjudag.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu kemur ekki til greina að skipið verði dregið inn í Helguvík því ef skipið sykki myndi höfnin þar lokast en þangað kemur meðal annars flugvélaeldsneyti og hefði það því þær afleiðingar að millilandasamgöngur legðust af. Líklegast þykir að skipið verði dregið í Keflavíkurhöfn.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.