ÚR kaupir þriðjung í Solo Seafood
Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem áður hét Brim, hefur keypt þriðjungshlut í Solo Holding ehf. sem á níu prósent hlut í Iceland Seafood International. Kaupverðið er samkvæmt upplýsingum Kjarnans, 8,02 krónur á hlut. Það þýðir að Útgerðarfélagið greiðir um 652 milljónir króna fyrir hlutina og mun eiga um 3,5 prósent beinan hlut í Iceland Seafood.
Aðrir eigendur Solo Holding eru Sjávarsýn ehf., félag í eigu Bjarna Ármannssonar, Jakob Valgeir ehf., og Nesfiskur ehf. Þessir þrír aðilar eiga auk þess hver um sig 16,67 prósent hlut í Solo Holding auk þess sem þeir eiga beint hluti í Iceland Seafood, sem er sölu- og markaðsfyrirtæki í útflutningi á ferskum, frosnum og söltuðum sjávarafurðum.
Þétta raðirnar
Bjarni Ármannsson, sem er stjórnarformaður Solo Holding, segir í samtali við Kjarnann að aðkoma Útgerðarfélags Reykjavíkur að Iceland Seafood sé mjög mikilvæg. „Það er að mínu mati mjög mikilvægt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi á Íslandi þétti raðirnar og standi saman, sérstaklega þegar kemur að sölu- og markaðsmálum á alþjóðavettvangi. Þetta er að mínu mati mikilvægt skref á þeirri vegferð.“
Eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur er Guðmundur Kristjánsson. Hann keypti fyrr á þessu ári 35,01 prósent hlut í HB Granda í gegnum félagið. Kaupverðið var yfir 22 milljarða króna Skömmu síðar tók hann við starfi forstjóra þar. Um miðjan september samþykkti stjórn HB Granda svo að kaupa útgerðarfélagið Ögurvík af Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 12.3 milljarða króna. Tekist hefur verið á um verðmatið á þeim hlut en kaupin virðast nú ætla að ganga í gegn.
Íhuga að skrá félagið á aðalmarkað
Iceland Seafood keypti fyrirtækið Solo Seafood á 7,8 milljarða króna sumar. Kaupverðið var greitt með útgáfu nýrra hlutabréfa. Eigendur Solo, ofangrein félög, eignuðust við það 44 prósent hlut í Iceland Seafood International. Hópurinn bætti svo við sig hlutum í félaginu í september.
Fréttablaðið greindi frá því í upphafi ágústmánaðar að stjórnendur Iceland Seafood væru að íhuga að skrá félagið á aðalmarkað, en það er þegar skráð á First North-markaðinn. Það yrði þá annað sjávarútvegsfyrirtækið sem skráð yrði á markað en fyrir þar er HB Grandi. Stærsti eigandi þess er, líkt og áður sagði Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem hefur nú keypt sig inn í Iceland Seafood.
Frétt fengin af https://kjarninn.is