Torula gersveppamjöl í fóðri fyrir Atlantshafslaxa

Deila:

Vísindagreinin „Torula yeast in the diet of Atlantic salmon Salmo salar and the impact on growth performance and gut microbiome.“ var birt  af vísindatímaritinu Scientific Reports nú á dögunum, sem gefið er út af Nature. Rannsökuð voru áhrif Torula gersveppamjöls á vaxtarafköst og þarmaörverur eldislaxa, þar sem hefðbundnum próteinum í fóðri var skipt út fyrir gersveppamjöl. Niðurstöðurnar kunna að koma á óvart.

Með örum vexti laxeldis eykst þörfin á að finna og þróa viðeigandi staðgengil fyrir hefðbundna próteingjafa í fóðri. Torula gersveppamjöl (Candida utilis) hefur verið skilgreint sem nýprótein (e. Alternative Protein) sem getur komið í stað hefðbundins próteins í fóðri. Hægt er að rækta gersveppinn á sjálfbæran hátt. Í þessari rannsókn voru skoðuð áhrif gersveppamjöls á vaxtarafköst og þarmaörverur í ferskvatns Atlantshafslöxum. Prófað var fóður sem innihélt prótein úr sjávarfangi, t.d. fiskimjöl, sem og blandað sjávar- og plöntuprótein þar sem hefðbundnum próteinum var skipt út fyrir aukið magn af gersveppamjöli (0%, 10%, 20%).

Þessi rannsókn sýndi að á vaxtarstigi laxa í ferskvatni, getur gersveppamjöl að hluta komið í stað hefðbundinna próteina í samsettu fóðri, en að ákjósanlegasta magn inntöku er háð heildarsamsetningu fóðursins og tegundum próteina sem verið er að skipta út. Í fóðrinu sem innihélt prótein úr sjávarfangi leiddi þessi rannsókn í ljós að 20% gersveppamjöl má setja í fóðrið án þess að breyta vaxtarafköstum og með hugsanlegum ávinningi fyrir örverusamfélagið í þörmum eins og aukningu á sumum mjólkursýrubakteríum.

Til samanburðar, í fóðrinu sem sameinar prótein úr sjávarfangi og plöntuprótein, styður 10% innihald af gersveppamjöli betri vaxtarafköst en hefðbundin prótein. Við hærra inntökugildi, 20%, var enginn ávinningur af vexti og hugsanlega skaðlegar breytingar á örverum í þörmum, svo sem fækkun mjólkursýrugerla og aukið magn baktería sem tengist hægari vexti í öðrum tegundum laxfiska.

 

Deila: