Vesturbyggð í viðræðum við Arnarlax um sátt í deilumáli

Deila:

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð staðfestir við Bæjarins besta að viðræður hafi staðið yfir við Arnarlax um málalok vegna ógreiddra aflagjalda. Viðræðunum er ekki lokið og því var málflutningi sem áætlaður var í dag frestað.

Það var fyrir rúmu ári að Vesturbyggð stefndi Arnarlax fyrir dómstóla vegna ágreinings um hækkun á aflagjaldi af lönduðum eldisfiski. Sveitarfélagið hafði hækkað í lok árs 2019 gjaldið úr 0,6% upp í 0,7% af aflaverðmæti en Arnarlax mótmælti hækkuninni og vildi ekki greiða hana. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta mun Arctic Fish einnig hafa andmælt hækkuninni en greiddi hana með fyrirvara um lögmæti hennar.

Í upphafi var ákveðið að málið yrði á dagskrá Héraðsdóms Vestfjarða 7.4. 2021 en málinu hefur ítrekað verið frestað og málflutningur var síðast fyrirhugaður í dag.

Heimild sveitarfélaga til þess að leggja aflagjald á afla er til þess að standa undir kostnaði sveitarfélagsins við aðstöðusköpun og þjónustu. Ekki er um skatt að ræða og má því gjaldið ekki vera umfram tilkostnað.

Vesturbyggð telur hækkunina rúmast innan heimilda laganna en Arnarlax er á öndverðri skoðun.

Aflagjöld af eldisfiski voru langstærsti tekjuliður hafnarsjóðs Vesturbyggðar á árinu 2020. Alls fékk hafnarsjóður aflagjald af 18.702 kg af eldisfiski og var upphæðin samtals 101 milljón króna. Aflagjald af eldisfiskinum var 44% af heildartekjum hafnarinnar. Afkoma hafnarsjóðs Vesturbyggðar það ár var jákvæð um 67 m.kr. sem er nærri 30% af rekstrartekjum.
Frétt af bb.is

Deila: