Gengi bréfa Síldarvinnslunnar í hæstu hæðum

Deila:

Kvika og Reitir leiddu hækkanir á Aðalmarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í gær en gengi félaganna hækkaði um nærri 4%. Gengi Síldarvinnslunnar hækkaði um tæplega 2%, upp í 106 krónur á hlut samkvæmt frétt á vb.is.

Gengi meirihluta félaga sem skráð eru á Aðalmarkað kauphallar Nasdaq á Íslandi, eða 14 af 22, hækkaði í viðskiptum dagsins. Heildarvelta viðskipta nam 4 milljörðum króna og úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um 1,07%.

Gengi hlutabréfa Kviku hækkaði mest í viðskiptum dagsins, um 3,9% í nærri 600 milljóna króna veltu. Fast á hæla Kviku fylgdu svo Reitir með 3,78% hækkun í 193 milljóna króna veltu. Nova og Skeljungur komu svo þar á eftir með 2,3% gengishækkanir.

Eik og Iceland Seafood leiddu gengislækkanir, en gengi beggja félaga lækkaði um rétt rúmlega 2,5%.

Gengi hlutabréfa Síldarvinnslunnar hækkaði um nærri 2% í viðskiptum dagsins og stendur í kjölfarið í 106 krónum á hlut. Gengi bréfa félagsins hefur aðeins einu sinni mælst jafn hátt frá því að hlutabréf þess voru tekin til viðskipta í byrjun síðasta sumars. Það var þann 26. apríl síðastliðinn.

 

Deila: