Gengi Marel og Eimskips hækkar

Deila:

Íslenska úrvalsvísitalan hækkaði um 0,3% í 4,9 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í gær. Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem hækkuðu fimmta viðskiptadaginn í röð. Gengi Marels hækkaði um 0,7% í 1,3 milljarða viðskiptum og stendur nú í 544 krónum á hlut.

Flutningafélagið Eimskip hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,6% í nærri 600 milljóna veltu. Gengi Eimskips stóð í 590 krónum við lokun markaða og er 4% frá því að það fór hæst í 615 krónur fyrir þremur vikum síðan.

Hlutabréf tíu félaga að aðalmarkaðnum lækkuðu í viðskiptum dagsins. Af þeim lækkaði gengi útgerðarfélagsins Brims mest eða um 1,6% í 58 milljóna veltu og stendur nú í 94,5 krónum. Þar á eftir kom VÍS sem féll um eitt prósent í hálfs milljarðs króna viðskiptum. Gengi VÍS stendur í 19,2 krónum á hlut eftir 3,5% lækkun síðasta mánuðinn.
Frá þessu er greint á vb.is

 

Deila: